Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur kynnt áform um tvö ný frumvörp sem miða annars vegar að því að gera rekstur rafknúinna skipa hagkvæmari og hins vegar að heimila bátum að vera með stærri skrúfur án þess að það skerði aflaheimildir.

Til dæmis geti smábátar eða fiskiskip sem eingöngu eru knúin rafmagni þá fengið heimild til að landa 750 kg á strandveiðum í stað 650 kg, í þorskígildum talið. Þessi breyting eigi að taka gildi strax á næsta fiskveiðiári.

Þetta geti orðið hvati fyrir eigendur smábáta eða minni fiskiskipa til þess að „fjárfesta í nýjum bátum eða skipum eða gera breytingar á bátum og skipum sínum þannig að þau gangi fyrir rafmagni með drifrafhlöðum í stað jarðefnaeldsneytis.“

Einnig er ætlunin að bátar megi hafa stærri skrúfu samfara hæggengari vel vegna þess að þannig næst umtalsverður árangur í orkusparnaði.

„Stærri skrúfa (aukið þvermál) þýðir hækkaðan aflvísi, sem leiðir til þess að óbreyttu að heimildir smærri togskipa til veiða innan 12 mílna fiskveiðilandhelginnar skerðast.“

Þá sé fyrirhugað að heimila að bátar sem nota vistvæna orkugjafa séu „stærri en gildandi lög setja takmörkun um, þar sem slíkir bátar gera kröfu um aukið rými fyrir orkuinnihald, þ.e. stærri tanka eða rými fyrir rafhlöðu.“

Áform þessi eru komin í kynningu á Samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess að senda inn umsagnir gefinn til næstu mánaðamóta.

Á síðustu árum hafa ný skip sem komið hafa til landsins sum hver verið með stærri skrúfum en áður hefur verið vani til.

Páll Pálsson og Breki

Tveir nýir skuttogarar, Páll Pálsson ÍS og Breki VE, komu til landsins fyrir nokkrum árum og er bæði með stærri skrúfur en almennt hefur tíðkast hér Hraðfrystihúsið Gunnvör gerir út Pál Pálsson en Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum Breka og láta útgerðirnar vel af.

Þau Sævar Birgisson og Rakel Sævarsdóttir hjá Skipasýn, sem hannaði bæði skipin, segja skrúfustærðina skipta sköpum þegar kemur að orkusparnaði og hagkvæmni skipanna tveggja.

„Allir bátar sem við höfum smíðað hingað til hafa verið með stóra skrúfu,“ sagði Sævar Birgisson, forstjóri Skipasýnar, í viðtali við Fiskifréttir um þetta efni árið 2020. Enda sé löngu vitað að ódýrast sé að framleiða togspyrnu með hægum snúningi skrúfunnar.

Hann sagði nauðsynlegt í þessu sambandi að huga að reglum hér á landi um aflvísi. Þær reglur takmarka vélarafl út frá skrúfustærð, því aflvísir er reiknaður út þannig að vélaraflið er margfaldað með þvermáli skrúfunnar. Það þýðir að því stærri sem skrúfan er höfð því minna má vélaraflið vera.

„Það er ekki gott, að á sama tíma og hamrað er á okkur að hanna skip sem eyði sem minnst og losi sem minnst af koltvísýring út í andrúmsloftið, þá eru í gildi reglur um fiskveiðistjórnun sem hvetja beinlínis til hins gagnstæða.“

Stálskip í smíðum

Annað dæmi er frá Skipasmíðastöð Njarðvíkur, sem nú er með nýtt stálskip í smíðum inn í krókaaflamarkskerfið.

Algeng skrúfustærð á krókaaflamarksbátum er um einn metri í þvermál en skrúfan á nýsmíðinni er 1,7 metrar. Þráinn Jónsson framkvæmdastjóri sagði í Fiskifréttum í síðustu viku að með þessu fari olíunotkun niður um 25%. Þráinn sagði ennfremur að Skipasmíðastöðin hafi orðið þess áskynja að útgerðir úr báðum kerfum hugi að endurnýjun báta. Einnig borist fyrirspurnir frá útgerðum stærri báta, t.a.m. snurvoðarbáta og rækjubáta, um smíði á allt að 24 metra löngum bátum.