Hafrannsóknastofnun segir að verið sé að vinna ítarlegar greiningar á seiðabúskap smærri áa og lækja. Brátt fáist vísbendingar um hvort líffræðilegum fjölbreytileika sé ógnað.

Hafrannsóknastofnun hefur birt svör við spurningum frá Jóni Kaldal hjá IWF sem lúta að laxastofnum í smærri ám og lækjum sem ekki hafa verið teknir með í áhættumati stofnunarinnar vegna erfðablöndunar við eldislax.

Spurningunum er beint til höfunda áhættumatsins, og meðal annars voru þeir spurðir hvort þeir telji ásættanlegt að „villtir laxastofnar, sem ekki teljast nytjastofnar, verði fyrir spjöllum vegna erfðablöndunar við eldislax?“

Spurningunni er svarað óbeint þannig að áhættumatið eigi eingöngu við um villta nytjastofna. Til þess að teljast nytjastofn þurfi stofn að vera „í því magni að hann þoli að þar sé stunduð sjálfbær veiðinýting.“ Hafrannsóknastofnun hafi lagt til að miðað sé við að „lágmarksmörk skráðrar veiði séu 50 fiska meðalveiði á samfelldu tíu ára tímabili.“

Greiningar á seiðabúskap

Jón Kaldal vísar einnig til skýrslu sérfræðinganefndar frá 2020 þar sem bent er á að í smærri ám og lækjum gætu fiskar verið hluti af stærri yfirstofni, og sagt að tiltölulega einfalt væri að taka slíkar ár inn í líkanið sem notast er við gerð áhættumats.

„Vegna þessa hefur verið farið í ítarlegar greiningar á seiðabúskap þessara vatnsfalla,“ segir í svari stofnunarinnar. „Vinnsla þessara gagna er nú í gangi til að kanna hvernig slíkar stofneiningar hafa áhrif á nytjastofna á Vestfjörðum. Þá fást vísbendingar um hvort líffræðilegum fjölbreytileika sé ógnað.“

Mikilvægi rannsókna

Jón spyr einnig um aðra áhættuþætti en erfðablöndun, svo sem lúsasmit og áhrif sjókvíaeldis á aðra nytjastofna og aðra þætti lífríkis og umhverfis.

Hafrannsóknastofnun svarar því til að þekking á þessum þáttum hér á landi muni „aukast á næstu árum í kjölfar þeirrar þekkingar sem aflast með rannsóknum og reynslu af eldinu.“

Undirstrika verði mikilvægi þess að fjármagn verði tryggt til upplýsingagjafar, eftirlits og rannsókna á þessum þáttum.