Fiskverkunarhús Stakkavíkur í Grindavík er illa farið eftir jarðhræringarnar og útlit fyrir að það verði ekki nothæft að óbreyttu þótt ró færist yfir ástandið á svæðinu. Hermann Ólafsson, framkvæmdastjóri Stakkavíkur, segir að það kæmi sér ekki á óvart að fiskverkunarhúsið yrði úrskurðað ónýtt.

Sprungið gólf og veggir

Hátt í eitt hundrað manns starfa hjá Stakkavík þegar allt er talið, þar af um helmingurinn í fiskvinnslunni sjálfri.

„Það er svo sprungið gólfið og veggir og svo gengur sprunga í gegnum allt húsið. Það eru mjög miklar skemmdir inni í húsinu sem er staðsett nákvæmlega á sprungu sem rústaði húsinu. Gólfið í stóra salnum þar sem vinnslan fer fram er mölbrotið. Við töldum okkur vera á öruggara svæði og erum það reynar ef til eldgoss kæmi. Við erum hátt uppi og niður við sjó. En þarna liggur ein sprunga sem við virðumst ekki hafa borið virðingu fyrir. Stóra sprungan við íþróttahúsið er á svæði þar sem áður var gjá sem mokað var upp í og farið að byggja. Við fórum þarna sem guttar til að leika okkur. Ég efast um að nokkur maður byggi nú orðið á sprungum og held að menn hljóti að læra eitthvað af þessu,“ segir Hermann.

Nýr bátur á næstu vikum

Framundan hjá Hermanni og hans mönnum er að láta meta tjónið á húsinu en hann kveðst ekki vita hvort starfsemi verði í því á ný. Vinna er hafin við að taka vélar og búnað út úr húsinu og verði það niðurstaðan sú að húsið sé enn nothæft verði steypt upp í skemmdir.

„Ég vonast til þess að við getum byrjað aftur eftir áramót ef allt gengur að óskum og við getum steypt gólfið.“

Starfsfólk Stakkavíkur eins og annarra grindvískra fyrirtækja eru í algjörri óvissu með framtíðina og Hermann segir að fyrirtækin séu einnig í óvissu með sitt starfsfólk. Takist ekki að hefja starfsemi fljótt á ný verði erfiðleikum bundið að halda starfsfólkinu sem leitar annað eftir vinnu.

Óvíst hvar Margrét GK verður

Á næstu vikum stendur til að Stakkavík taka við nýjum stálbát, Margréti GK, sem Skipasmíðastöð Njarðvíkur hefur látið smíða og er að ganga frá.

„Það fer enginn bátur inn til Grindavíkur eins og staðan er í dag, hvort sem hann er gamall eða nýr. Ég er ekkert að spá í það núna hvernig ég geri bátinn út. Það eru allt aðrir hlutir sem ganga fyrir núna og það er að koma starfseminni af stað. Það þarf að fá úr því skorið hvort hægt verði að gera við húsið og unnt verði að verka fiskinn þar. Annars verður við bara að veiða fiskinn og selja hann. En við viljum reyna að verka hann. Það er kvóti á þessu öllu og þetta þolir svo sem dálitla bið,“ segir Hermann.

Margrét GK 9, krókaaflamarksbátur Stakkavíkur, þegar hún kom með flutningaskipi frá Tyrklandi til Njarðvíkur um miðjan október. Skipið er senn tilbúið til afhendingar en ekki ljóst hvaða það verður gert út. Mynd/Þráinn Jónsson.
Margrét GK 9, krókaaflamarksbátur Stakkavíkur, þegar hún kom með flutningaskipi frá Tyrklandi til Njarðvíkur um miðjan október. Skipið er senn tilbúið til afhendingar en ekki ljóst hvaða það verður gert út. Mynd/Þráinn Jónsson.

Hann segir að eftir farið var að létta á aðgangsstýringum að bænum hafi vaknað vonir um að leyfi fáist til þess að hefja starfsemi í þeim húsum sem undir það eru búin á þann hátt að starfsfólki verði ekið í hópbifreiðum að vinnustöðunum. Þær verði þar til taks og breytist ástandið verði hægt að koma fólki frá staðnum fyrirvaralaust.