Framleiðsla á sjávarafurðum á Spáni er ekki meiri en svo að Spánverjar hefðu orðið fisklausir 24. maí ef innflutnings á fiski nyti ekki við, að því er fram kemur í frétt á vefnum fis.com.
Sjálfstæð samtök taka saman upplýsingar og birta reglulega um það hvenær árs einstök Evrópulönd hætta að vera sjálfum sér nóg um fisk. Með þessari framsetningu, sem ekki má taka bókstaflega, er verið að vekja athygli á því að meira en 50% af þeim fiski sem til dæmis Spánverjar borða er innfluttur.
Margar Evrópuþjóð eru ver settar en Spánverjar að þessu leyti. Framleiðsla sjávarafurða í Portúgal dugir þjóðinni aðeins í þrjá mánuði, Þjóðverjar höfðu etið sinn fisk upp til agna 20. apríl síðastliðinn, Ítalir höfðu sporðrennt sínu fiskmeti 30. apríl og Frakkar höfðu etið sem samsvarar ársframleiðslunni af fiski 21. maí.
Hvað varðar Evrópulönd í heild þá geta þau ekki séð sér fyrir fiski nema til 6. júlí ár hvert.