Nú er Matvælasjóðsverkefnið Þróun mynd- og litrófsgreiningarspálíkans til að meta gæði fiskimjöls sem innihaldsefni í laxeldisfóður hálfnað, en fyrra verkefnisárinu lauk á haustdögum 2023.

Þetta kemur fram á vef Matís. Þar segir að um sé að ræða samstarfsverkefni Félags íslenskra Fiskimjölsframleiðenda, Síldarvinnslunnar, Eskju, Ísfélagsins, Háskóla Íslands og Matís.

„Markmið verkefnisins er að þróa NIR (near-infrared spectroscopy) spálíkan sem gerir fiskimjölsframleiðendum kleift að fá hraðvirka og nákvæma greiningu á gæðum fiskimjöls sem innihaldsefnis í laxeldisfóður,“ segir á matis.is.

Mælingar í dag nýtast takmarkað

Þá segir að flestir íslenskir fiskimjölsframleiðendur noti nú þegar NIR til að mæla efnainnihald fiskimjölsins, og fái þannig góðar vísbendingar um gæði fiskimjölsins. Þær NIR mælingar sem í dag séu gerðar nýtist þó takmarkað þegar komi að því að meta gæði fiskimjölsins til aðalnotkunar þess, það er sem innihaldsefnis í fiskeldisfóður.

„Ef gera á slíkar mælingar þarf að framkvæma vaxtar- og meltanleikatilraunir í fiskeldi sem eru bæðir tímafrekar og kostnaðarsamar. Með því að þróa NIR spálíkan er hins vegar hægt að stytta tímann á greiningunum úr mörgum mánuðum í nokkrar sekúndur, og kostnaðinn úr mörgum milljónum í nánast ekki neitt.“

Viðskiptaleyndarmál í Noregi

Ekki sé um að ræða nýja nálgun því norskir fóðurframleiðendur hafi þróað slík NIR spálíkön fyrir nokkrum árum síðan og notað þau til að meta gæði fiskimjölsins sem þau kaupa.

„Þessir framleiðendur hafa hins vegar litið svo á að spálíkönin þeirra séu viðskiptaleyndarmál, sem gefi þeim samkeppnisforskot. Með því að þróa og gera sambærileg spálíkön aðgengileg fyrir íslenska fiskimjölsframleiðendur munu þeir hafa sömu (eða betri) upplýsingar um eiginleika framleiðslu sinnar, eins og viðskiptavinir þeirra, og því gera þeim kleift að semja um verð við sína viðskiptavini á jafnréttisgrundvelli.“

Spálíkanið er sagt einnig munu gera fiskimjölsframleiðendum kleift að meta og eða bæta sína eigin framleiðslu, með upplýsingum fyrir innra gæðaeftirlit. Gagnagrunnurinn/spálíkanið verði afhent þátttakendunum, fiskimjölsframleiðendunum, undir lok verkefnisins, ásamt því sem haldin verði námskeið í notkun þess.

Stefnt er á að ljúka verkefninu undir lok árs 2024.