„Bæði þorskurinn og ufsinn sem komið hafa í net á Selvogsbankanum og víðar hafa verið fullir af smámakríl og síld í nóvember og desember. Þetta er í mínum huga óræk sönnun þess að makríllinn er hérna allt árið um kring og er að alast hér upp," segir Hannes Sigurðsson, framkvæmdastjóri útgerðarfyrirtækisins Hafnarnes VER í Þorlákshöfn í frétt á vef LÍÚ.

Fregnir um makríl í þorskmögum hafa borist af og til á síðustu árum en Hannes segist ekki fyrr hafa séð svona mikið af honum. „Það er sama sagan hjá flestum bátum sem hafa verið á netum á Selvogsbanka síðustu vikurnar, að bæði þorskurinn og ufsinn hafa verið fullir af makríl og síld," segir Hannes.

Á myndum, sem Hannes tók má sjá að makríllinn er um og undir 20 sm að lengd. Það svarar til þess að hann sé ársgamall eða þar um bil. Í erindi um makríl, sem Þorsteinn Sigurðsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnuninni, flutti á aðalfundi LÍÚ í haust kom m.a. fram að ársgamall makríll væri 20-23 sm að lengd. Makríllinn verður kynþroska 2-3 ára gamall. Algeng stærð fullorðins makríls er 33-43 sm.