Þrír bátar eru gerðir út á snurvoð í Faxaflóa að þessu sinni og hafa aflabrögð fyrstu dagana í Bugtinni verið allgóð. Björgvin Færseth skipstjóri á Sigga Bjarna GK sagði að uppistaðan í aflanum væri rauðspretta og óvenjulítið væri af þorski þar sem þeir hefði dregið. Auk Sigga Bjarna eru það Aðalbjörgin RE og Benni Sæm GK sem hafa leyfi til veiðanna.

„Það er alltaf gaman að komast hingað inn í Bugtina en oft er maður líka feginn að komast út úr henni. Þetta var rólegt hérna fyrir helgi upp úr mánaðamótunum. Það var stærsti straumur og við vorum ekki með nema átta tonn og svo sjö tonn fyrstu tvo dagana. Svo var ágæt veiði eftir helgi og fór í ein nítján tonn yfir daginn í þessari líka bongóblíðu alla daga. Uppistaðan í þessu er spretta og af þessum nítján tonnum voru 12 tonn spretta. En mér finnst þetta ekki byrja af jafnmiklum krafti og í fyrra. Rauðsprettan er ekki alls staðar hérna á suðursvæðinu og við þurfum að teygja okkur aðeins meira út á aðeins sárari botn,“ segir Björgvin.

Annars er afli snurvoðarbátanna skemmtileg blanda tegunda. Auk rauðsprettunnar kemur upp í pokanum sólkoli, skötuselur, steinbítur, sandkoli, langlúra, blálanga, langa, karfi og lýsa auk þorsks og ýsu.

Björgvin Færseth, skipstjóri á Sigga Bjarna GK.
Björgvin Færseth, skipstjóri á Sigga Bjarna GK.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sést varla þorskur

Björgvin segir það þó til nokkurra tíðinda nú að varla sjáist þorskur í aflanum. Eftir fyrstu sex túrana var Siggi Bjarna kominn með tæp 58 tonn upp úr sjó, þar af tæp 29 tonn af rauðsprettu. Eftir þessa sex túra voru ekki nema tæplega 600 kg af þorski í aflanum en tæp 6 tonn af ýsu. Benni Sæm GK, sem er gerður út af Nesfiski eins og Siggi Bjarna, var kominn með rúm 45 tonn upp úr sjó eftir fyrstu sex dagana og Aðalbjörg RE með tæp 52 tonn, þar af 43 tonn af rauðsprettu. Samanlagt höfðu þeir þrír snurvoðarbátar sem hafa leyfi til veiða í Faxaflóa því fengið um 155 tonn upp úr sjó fyrstu sex róðrana.

Snurvoðarbátar Nesfisks þurfa ekki langt að stíma til að komast á miðin en Björgvini finnst mikið gert úr því að þetta séu einhver sérstök tímamót þegar veiðar hefjast í Bugtinni. „Ef það væri ekki þetta þá væri það bara eitthvað annað. Tvö ár í röð fórum við ekki einu sinni í Bugtina en þá var reglugerðarfarganið ekki upp á marga fiska heldur. Þá þurftum við að fá kola upp á móti þorski. Nú er búið að afnema þá reglu og í desember í fyrra var bara vertíðarmánuður því það var svo mikið af þorski. Hann sést ekki núna en hann á eftir að láta sjá sig þegar kemur einhver sjór að ráði. Það þarf að hreyfa aðeins ölduna en hann kemur, ég hef engar áhyggjur af því. Við verðum að fram að jólum. Svo tökum við jólafrí og svo hefst bara vertíð,“ segir Björgvin.

Staðið í aðgerð

Björgvin segir að allt sé slægt um borð og það séu ófá handtökin enda margir fiskar í hverju tonni. Sex eru í áhöfn og mannskapurinn stóð allur upp á annan endann í aðgerð og dugði ekki til. Þurfti Björgvin að láta reka fyrir utan Sandgerði í klukkustund til að klára aðgerðina, þetta var því 12-13 tímar í aðgerð þann daginn.