Útflytjandi í Noregi á þurrkuðum saltfiski hefur ákveðið að snúa baki við Brasilíumarkaði og hyggst frekar selja fiskinn til Afríku. Hann segir spillingu, skrifræði og vanskil vera mikilvæga skýringu á hruni á útflutningi á norskum saltfiski til Brasilíu.
Frá þessu er greint í Fikseribladet/Fiskaren þar sem vitnað er í útflytjandann, Sverre Solbak hjá Sol Bac Export í Álasundi. Hann flytur út fisk fyrir um 150 milljónir króna á ári, eða um 2,8 milljarðar ISK.
Á síðustu fimm til sex árum hefur útflutningur á saltfiski til Brasilíu minnkað umtalsvert. Hér áður var markaðhlutdeild norska saltfisksins í Brasilíu um 90% en er nú komin niður í 50%. Hingað til hefur verið talið að norski fiskurinn hafi orðið undir í samkeppni við einfaldari og neytendavænni saltfiskafurðir frá Kína og Portúgal.
Solbakk viðurkennir að norski saltfiskurinn, sem ekki er unninn í neytendaumbúðir, eigi undir högg að sækja í samkeppi við meira unnar afurðir. Hins vegar segir hann þetta ekki vera einu skýringuna á samdrætti í sölu. Norskir útflytjendur séu orðnir langþreyttir á skrifræði, spillingu og greiðsluerfiðleikum brasilískra kaupenda. Útflytjendur leiti því annað og beini sjónum sínum í æ ríkari mæli til markaða á vesturströnd Afríku, til dæmis til ríkja eins og Angóla og Kongó.