TM, Hefring og Whale Safari hafa tekið höndum saman um að stórauka öryggi og um leið hafa áhrif á iðgjöld trygginga fyrir farþegabáta hér við land. Samstarfið felur í sér notkun á snjallsiglingarkerfinu IMAS (Intelligent Marine Assistance System), hug- og vélbúnaðarlausn sem Hefring hefur þróað.

Kerfið safnar gögnum í rauntíma um öldulag, hreyfingar báts og frá vélum og öðrum búnaði um borð á meðan á siglingu stendur, til að reikna og birta leiðbeinandi siglingarhraða fyrir skipstjóra með tilliti til öryggis. IMAS kerfið hjálpar þar með við að draga úr hættu á slysum um borð eða skemmdum á báti og búnaði en getur einnig dregið úr eldsneytiskostnaði og minnkað kolefnisfótspor með bestun á siglingarhraða. Öllum gögnum sem safnað er úr siglingum báts og flota báta er streymt í IMAS Console skýið. Þar er hægt að fylgjast með siglingum í rauntíma, greina allar ferðir og gögn til að bæta bætta ákvörðunartöku og yfirsýn yfir reksturinn.

Tryggingakostnaður aukist um 25-80%

Whale Safari, sem sérhæfir sig í hvala- og fuglaskoðunarferðum, stóð eins og önnur fyrirtæki í þessum geira, frammi fyrir hækkandi tryggingarkostnaði vegna þeirrar áhættu sem fylgir rekstri háhraða farþegabáta. Meðalkostnaður við tryggingar háhraðabáta hefur hækkað um 25 til 80% á heimsvísu á síðustu árum Þessir bátar ná miklum hraða og geta tekið allt að tólf farþega í sæti en við siglingu slíkra báta geta myndast alvarleg ölduhögg sem geta verið allt að níu sinnum meiri fram í stefni, þar sem fremstu farþegarnir sitja, en aftur í skut, þar sem skipstjóri er venjulega staðsettur.

Methúsalem Hilmarsson frá TM, Karl Birgir Björnsson frá Hefring Marine og  Reynar Ottósson frá Whale Safari.
Methúsalem Hilmarsson frá TM, Karl Birgir Björnsson frá Hefring Marine og Reynar Ottósson frá Whale Safari.

Whale Safari hefur nýtt IMAS kerfið frá árinu 2022. Í lok hverrar ferðar og í lok tímabilsins var í IMAS kerfinu hægt að nálgast ítarlegar skýrslur um allar siglingar á tímabilinu. Skýrslurnar veita yfirsýn yfir árangur við að bæta öryggi auk þess að fram koma atriði þar sem gera má enn betur. TM gat séð út frá skýrslunum að notkun Whale Safari á IMAS kerfinu hefði skilað þeim ávinningi í auknu öryggi og fækkun tjóna og leiddi það til lækkunar á tryggingargjöldum Whale Safari.