Rík hefð er fyrir því víða í Evrópu, einkum um miðbik álfunnar, að snæða vatnakarfa á jólunum. Margir Pólverjar, Tékkar, Slóvakar og Ungverjar geta ekki hugsað sér jólin án þess að gæða sér á vatnakarfa, gjarnan heilsteiktum á pönnu eða soðnum í súpu. Þessi siður er einnig algengur sums staðar í Þýskalandi og Austurríki.

Sumir vilja helst kaupa fiskinn lifandi, og geyma hann í fötu heima hjá sér eða jafnvel í baðkarinu þangað til undirbúningur matreiðslu hefst. Sá siður er samt nokkuð á undanhaldi.

Þessi siður tengist kaþólskum sið sem bannar fólki að borða kjöt á jólaföstunni. Þegar komið er að jólum lýkur föstunni gjarnan með veglegri fiskmáltið, víðast hvar á aðfangadag, rétt áður en sjálf hátíðin gengur í garð.

Þorláksmessuskatan hér á landi er væntanlega partur af svipaðri hefð, arfur frá kaþólskunni, og raunar á skatan það sameiginlegt með vatnakarfanum að mörgum þykir hann ekkert sérstaklega bragðgóður. En láta sig þó hafa það, rétt eins og Íslendingar skötuna.

Barnið virðir fyrir sér vatnakarfa í körum, þar sem götusalar í miðborg Prag bjuggu sig undir jólasöluna. MYND/EPA
Barnið virðir fyrir sér vatnakarfa í körum, þar sem götusalar í miðborg Prag bjuggu sig undir jólasöluna. MYND/EPA

Vatnakarfinn í Evrópu er veiddur í vötnum og ám, en til þess að tryggja nóg framboð er hann fyrst alinn í sérstökum tjörnum þangað til hann verður nógu stór. Þá er honum sleppt í vötnin og veiddur þaðan upp samkvæmt gamalli hefð.

Áður en hann er seldur nokkrum dögum fyrir jól er hann þó geymdur lifandi í kerum, jafnvel vikum saman, í tandurhreinu vatni sem á að losa fiskinn við lykt sem mörgum þykir óþægileg.

Ljósmyndarar hafa gaman af að fylgjast með þessum veiðum og öðru sem tilheyrir hefðinni, eins og sjá má hér á opnunni.