Beitir ehf. er lítið fjölskyldufyrirtæki í Vogum á Vatnsleysuströnd sem sérhæfir sig í smíði úr ryðfríu stáli fyrir sjávarútveginn. Fyrirtækið hefur gert strandhögg á Grænlandi og hefur í gegnum tíðina þjónustað íslenskan sjávarútveg með lausnir af ýmsu tagi í skip og vinnslur.
Allt á dekkið á Stapafelli SH
Það bar til tíðinda á árinu að Pétur Pétursson, útgerðarmaður í Ólafsvík, keypti bátinn Þorleif EA (áður Hringur) frá Grímsey og gerir hann út á dragnót í Faxaflóanum um þessar mundir. Beitir var fenginn til að smíða allt á dekkið í skipið sem nú heitir Stapafell SH og er gert út af Bárði ehf., útgerðarfélagi Péturs. Útgerð bátsins hefur gengið glimrandi vel. Beitir smíðaði móttöku sem tekur við aflanum þegar pokinn hefur verið hífður um borð. Tvö úttök eru úr móttökunni sem flýtir fyrir vinnu við blóðgun. Einnig voru smíðuð tvö blæðikör og sjö safnkör fyrir aukategundir sem þarf að flokka og vigta sér, eins og t.d. flatfisk af ýmsum gerðum.
Góð verkefnastaða
„Pétur hafði látið gera svipaða útfærslu á Bárði SH sem smíðuð var í Danmörku. Munurinn er sá að blóðgunin gengur mun hraðar fyrir sig á Stapafellinu. En það var kannski ekki saman að jafna því Stapafellið hefur verið í stórum þorski að mestu og handtökin færri,“ segir Hafsteinn Ólafsson sem á og rekur Beiti ehf. ásamt eiginkonu sinni, Þóru Bragadóttur, syninum Jónasi Braga og dætrunum Hrafnhildi og Brynhildi.
Hafsteinn segir verkefnastöðuna ágæta. Nú er verið að smíða fjórar þrýstitunnur fyrir Vigni G. Jónsson ehf. á Akranesi, dótturfélag Brims. Tunnurnar verða notaðar til að lita hrogn. Hugsanlega opnast markaður fyrir þessa vöru einnig á Grænlandi þar sem innlendir aðilar hyggjast stórauka sölu á grásleppuhrognum. Þau eru einnig seld fersk frá Grænlandi til Danmerkur, einkum framan af vertíðinni.
Mokuðu út netaspilum í Ilulissat
Beitir tók þátt í PolarExpo sjávarútvegs- og veiðisýningunni í Ilulissat 8.-10. október síðastliðinn. Sýningin var haldin í fyrsta sinn þar fyrir tveimur árum en hafði áður verið mörgum sinnum í Sissimiut. Á sýningunni 2022 mokaði Beitir út netaspilum sem fyrirtækið smíðaði fyrir smábátasjómenn á Grænlandi. Staðan var þá sú að mjög hafði dregið úr grálúðuveiði smábátasjómenna innanfjarða þar sem dregið er almennt á um 1.000 metra dýpi. Nokkrir fóru þá að reyna fyrir sér á meira dýpi, allt að 2.000 metrum og reyndist veiðin umtalsvert meiri þar. Svo mikil reyndar að þeir höfðu ekki búnað til að draga netin. Þetta leiddi til mikillar eftirspurnar eftir netaspilunum frá Beiti og umtalsverðrar sölu sem sér ekki alveg fyrir endann á.
Stórauka útflutning í vestur
Öllu rólegra var yfir sýningunni núna en líkur eru til þess að Beitir gæti einnig komist í góð viðskipti við stærri sjávarútvegsfyrirtækin á Grænlandi. „Núna seldum við fimm netaspil og við kynntum líka hrognaskiljur og hrognaker fyrir grálúðu. Menn hafa verið að vélvæða sig stöðugt meira enda stendur til að taka á móti enn meira af hrognum. Svo eru margir að búa sig undir stóraukinn útflutning á afurðum til Bandaríkjanna og Kanada því verið er að byggja risavaxinn flugvöll í Ilulissat sem er umtalsvert stærri en sá eldri í Nuuk. Til stendur að flytja út ferskan fisk í stórum stíl til Kanada. Svo hefur nýr og stærri flugvöllur líka verið opnaður í Nuuk. Aðallega skilst mér að þetta verði útflutningur á grálúðu en það er líka verið að leggja meiri áherslu á þorsk. Grænlenskir smábátasjómenn hafa fengið lélegt verð fyrir þorskinn innanlands og þeir varla nennt að veiða hann. En það er að breytast mikið núna og þeir spyrja um búnað í tengslum við veiðar á þorski,“ segir Hafsteinn.
Þeir stóru á önglinum?
Um áramót hefst nýtt fiskveiðiár í Grænlandi og binda smærri aðilar miklar vonir við að geta rétt hlut sinn í veiðum og sölu á fiski út fyrir landsteinana. Beitir ehf. hefur margoft reynt að komast í viðskipti við stærri fyrirtækin, eins og Royal Greenland og Polar Seafood en vart verið virt viðlits fram til þessa. Stærri fyrirtækin eru mörg í því að útvega sjómönnum bæði báta og búnað til veiðanna og fá fiskinn frá þeim í staðinn auk greiðslna. Núna sýna þessi fyrirtæki lausnum Beitis meiri áhuga og keypti eitt þeirra m.a. netaspil á svokölluðum „messuprís“ á sýningunni í Ilulissat. Mjór er mikils vísir, var einhvern tíma sagt.
Lengi hefur veiðibúnaður smábátasjómanna verið að danskri gerð en sá búnaður er hannaður fyrir allt aðrar aðstæður og á grynnra vatni en er að finna við Grænland. Búnaðurinn sem Beitir hefur hannað og smíðað hentar mun betur aðstæðum þar og þetta hafa menn í greininni verið að uppgötva að undanförnu. Fyrirtækið er nú orðið vel kynnt á Grænlandi og lítur Hafsteinn og fjölskylda björtum augum til frekari viðskipta þar í landi.