„Að mínu áliti eru það smámunir sem skilja þjóðirnar að. Færeyingar eru að heita má tilbúnir að skrifa undir það samkomulag sem nú er á borðinu,“ segir Jacob Vestergaard sjávarútvegsráðherra Færeyja í samtali við færeyska útvarpið.

Þar kemur einnig fram að samningaviðræður verði teknar upp að nýju eftir tvær vikur.

Eftir því sem næst verður komist virðist samkomulag á síðasta fundi hafa strandað á því sem Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsaráðherra kallaði "óbilgirni" Norðmanna sem fólst í því að krefjast þess að heildarkvótinn yrði ákveðinn 1,3 milljónir tonna en Íslendingar hafa talað fyrir 890.000 tonna kvóta í samræmi við vísindaráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.
Bent hefur verið á að hætta sé á að makríllinn hætti að ganga til Íslands ef gengið verði um of á stofninn og liggur þetta til grundvallar mismunandi afstöðu Norðmanna annars vegar og Íslendinga hins vegar.