Það hljóp heldur betur á snærið hjá smábátnum Dögg SU í októbermánuði. Báturinn veiddi um 203 tonn í mánuðinum, aðallega þorsk, sem er þriðji mesti afli sem smábátur hefur fengið í einum mánuði hér á landi, samkvæmt upplýsingum sem Fiskifréttir fengu hjá Gísla Reynissyni, sem heldur úti vefsíðunni aflafrettir.com.

Dögg SU sló Íslandsmet í afla smábáts í einum róðri í október en stærsta löndun bátsins var 22,4 tonn, eins og fram hefur komið í Fiskifréttum. Þá er ekki allt upptalið því Dögg átti einnig hæstan meðalafla í róðri í einum mánuð, fór í 16 róðra í október og var með 12,7 tonn að meðtali í róðri.

Sjá nánar frétt og viðtal við skipstjórann á Dögg SU í nýjustu Fiskifréttum.