Verði frumvarp nefndarinnar að lögum er áætlað að veiðigjald fyrir almanaksárið 2018 nemi um 8,6 milljörðum króna í stað ellefu milljarða samkvæmt fyrra mati. Að teknu tilliti til áforma um rýmkun persónuafsláttar er áætlað að veiðigjald muni skila ríkissjóði alls 8,3 milljörðum króna í tekjur á árinu 2018. Til samanburðar var innheimt veiðigjald fyrir almanaksárið 2017 var 8,4 milljarðar króna.
Í umræðum um veiðigjöld á undanförnum mánuðum hefur lækkun þeirra verið talin líkleg, enda standi litlar og meðalstórar útgerðir ekki vel vegna hækkunar þeirra. Þó felur krónutölulækkun á allan veiddan afla það í sér að þeir sem hafa til umráða mestu aflaheimildirnar fá mestu lækkunina í krónum talið.
Minnihluti atvinnuveganefndar gagnrýna frumvarp meirihlutans harðlega. Ekki síst að svo stórt mál, og pólitískt viðkvæmt, skuli koma fram þegar lítið lifir af yfirstandandi þingi. Telja óboðlegt að svo stórt mál þurfi að keyra í gegnum þingið á fáeinum þingdögum.
Formaður nefndarinnar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Vinstri-grænna, segir í viðtali við Fréttablaðið í morgun að verið sé að endurreikna veiðigjöld miðað við núverandi afkomu greinarinnar.
„Við erum að endurútreikna veiðigjöld miðað við afkomu greinarinnar í ár en ekki ársins 2015,“ segir Lilja Rafney við Fréttablaðið. „Miðað við afkomu greinarinnar í ár er augljóst að hún hefur versnað frá því sem var áður. EBITDA-hagnaður útgerðanna er kominn niður í um 16 prósent sem er ákveðin þolmörk,“ bætir hún við.
Smábátasjómenn fagna því að frumvarp sé loks komið fram sem kemur til móts við rekstrarvanda smábátaútgerðarinnar.
Landssamband smábátaeigenda gagnrýnir hins vegar harðlega að frumvarp í þessa veru hafi ekki fyrir löngu komið til kasta Alþingis, enda hafi LS byrjað að vekja athygly á aðsteðjandi vanda fyrir meira en ári þegar sýnt var að veiðigjöld myndu hækka meira en 100 prósent.
„Útgerð smábáta hefur sjaldan átt jafn erfitt uppdráttar og á yfirstandandi fiskveiðiári,“ segir LS á heimasíðu sinni. „Nú fer frumvarpið til umræðu í þinginu og mun LS gera kröfu um sérstakan viðbótarafslátt til útgerða smábáta.“
Auk almennrar lækkunar á veiðigjaldi um ríflega 30 prósent fyrir botnfiska og um 12 prósent í uppsjávarfiski, þá hækkar persónuafsláttur útgerða, sem svo er nefndur í greinargerð með frumvarpinu, þannig að hann verður 30 prósent á fyrstu 5,5 milljarða reiknaðs gjalds og 20 prósent á næstu 5,5 milljarða gjaldsins.
Þetta þýðir að afslátturinn nemur 2,7 milljónum króna fyrir hvern aðila í stað 1,6 milljónir áður.