Verksmiðja Royal Greenland í bænum Qeqertarsuaq norðarlega á Grænlandi tók á móti um 70 tonnum af loðnu í síðustu viku. Loðnan er fryst í blokkir og verður hún notuð sem beita við grálúðuveiðar.
Um 20 til 25 smábátar stunda loðnuveiðarnar og gert er ráð fyrir að þeir veiði um 100 tonn. Veiðarnar fara fram rétt utan við bæinn og að sögn er nóg af loðnu þar. Þetta eru ábatasamar veiðar og smábátasjómennirnir vilja heldur veiða loðnu en þorsk.