Á sama tíma og krókaflamarksbátar hafa lokið við að veiða úthlutaðan ýsukvóta sinn á yfirstandandi fiskveiðiári á eftir að veiða um 30% af ýsukvótanum í aflamarkskerfinu.
Á vef Landssambands smábátaeigenda er lýst undrun á því að viðskipti með ýsukvóta úr aflamarkskerfinu til krókabáta skuli ekki vera virkari en raun beri vitni, ekki síst þegar þess sé gætt að aðeins megi færa 10% af úthlutuðum heimildum yfir á næsta fiskveiðiár í stað 33% í fyrra.
,,Í aflamarkskerfinu á eftir að veiða rúm 15 þús. tonn en heimilt er að færa rúm 4 þús. tonn milli ára. Allt stefnir því í að þúsundir tonna af ýsu nýtist ekki til verðmæta á fiskveiðiárinu,” segir á vef LS.
Síðastliðinn þriðjudag, 23. júní, var meðalverð á ýsu til leigu, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu, 153 kr/kg og söluverð á fiskmörkuðum 272 kr/kg. Sama dag fyrir ári var ýsukvótinn leigður á 60 kr/kg en söluverð ýsu var 233 kr/kg.
Það sem af er fiskveiðiárinu hafa krókabátar leigt 1.881 tonn af ýsu úr aflamarkskerfinu en á sama tíma í fyrra höfðu þeir fært til sín 3.416 tonn.