Slippurinn DNG er að ljúka framleiðslu á ýmsum búnaði í saltfiskvinnslu Labrador Fishermen's Union á Nýfundnalandi. Þessi búnaður inniheldur meðal annars snyrtilínu, snigil, afsöltunarkerfi og forritun á allri vinnslunni.

„Við höfum heimsótt og kortlagt vinnsluna tvisvar á síðustu mánuðum. Slippurinn DNG framleiðir fjölbreytt úrval af tækjabúnaði fyrir fiskvinnslur. Við bjóðum einnig lausnir og þekkingu í forritun og hugbúnaði til viðskiptavinarins,“ segir Orri Fannar verkefnastjóri hjá Slippnum DNG.

Orri Fannar Jónsson verkefnastjóri hjá Slippnum DNG.
Orri Fannar Jónsson verkefnastjóri hjá Slippnum DNG.

„Við sjáum um að forrita allan stýringar fyrir vinnslulínuna í verksmiðjunni, ásamt því að framleiðsluhugbúnaðurinn PROMAS frá Slippnum DNG er notaður til að halda um öll framleiðslugögn.“

Gert er ráð fyrir að uppsetningu á verksmiðjunni sé lokið seinni hluta júní. Vertíðin byrjar svo um miðjan júlí.

DNG snyrtilína tilbúin fyrir Kanadamarkað.
DNG snyrtilína tilbúin fyrir Kanadamarkað.

„Í gegnum árin hefur Slippurinn DNG hannað og framleitt vinnsludekk fyrir skipaiðnaðinn og gríðarleg reynsla er innan fyrirtækisins á því sviði. Undanfarin misseri höfum við verið að færa út kvíarnar með hönnun og framleiðslu á heildarlausnum fyrir landvinnslur og er að opnast nýr markaður fyrir okkur með ótal tækifærum,“ segir Orri Fannar.