Matís hefur nýlega gefið út skýrslu sem rituð er í kjölfar greiningarvinnu til að draga fram mynd af hinum ýmsu þáttum sem vega þyngst í rekstri frystitogara á Íslandi. Skýrslunni er ætlað að styðja við ákvörðunartöku hvað varðar fjárfestingu í sjávarútvegi til framtíðar og skýra hvaða þættir í rekstri frystitogara vega þyngst.
Mikil breyting hefur orðið á útgerð frystitogara á Íslandi síðan hún hófst í byrjun níunda áratug síðustu aldar. Hlutdeild frystitogara í þorski hefur dregist saman umtalsvert og er hann í dag eingöngu veiddur sem meðafli við sókn í aðrar tegundir eins og karfa, ufsa og grálúðu. Árið 1992 voru frystitogarar flestir í íslenska flotanum, 35 talsins en í dag eru þeir 23 og fer fækkandi.
Í inngangi skýrslunnar segir m.a.: „Ástæður fyrir minnkandi hlutdeild frystiskipa í þorskveiðum má rekja til hækkunar á olíuverði, háum launakostnaði miðað við landvinnslu og breytinga á fiskmörkuðum, þar sem aukin eftirspurn hefur verið á ferskum flakastykkjum og aukahráefni. Óvissa í umhverfi sjávarútvegs og hækkun veiðigjalda hafa hins vegar komið í veg fyrir nauðsynlega fjárfestingu, sem er forsenda þróunar á búnaði og afurðum frystiskipa. Skipin eru komin til ára sinna og orðið tímabært að endurnýja flotann, ef hann á að standast samkeppni við framleiðslu afurða á markaði sem greiða hærra afurðaverð og stenst samkeppni við vinnslu bolfisks í landi.
Sjá nánar á vef Matís.