Fundist hafa í fyrsta sinn sterkar vísbendingar um erfðablöndun úr eldisfiski af norskum uppruna yfir í náttúrulega íslenska laxastofna. Þetta sýnir yfirstandandi rannsókn á vegum Hafrannsóknastofnunar. Höfundar óbirtrar rannsóknar leiða að því líkum að þar séu komin fram afkvæmi strokulaxa úr slysasleppingu í Patreksfirði í nóvember 2013.

Þetta kemur fram í nýbirtri skýrslu Hafrannsóknastofnunar – Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi. Niðurstöður skýrslunnar hafa verið nokkuð í umræðunni en þar er lagst gegn laxeldi í Ísafjarðardjúpi og Stöðvarfirði vegna mögulegra neikvæðra áhrifa á villta laxastofna.

Niðurstöður matsins eru þó ennfremur að ásættanlegt sé að leyfa allt að 71.000 tonna framleiðslu af frjóum eldislaxi hér við land. Þar af 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum. Hér er um að ræða sjöfalda núverandi ársframleiðslu í íslensku laxeldi sem verður um 10.000 tonn á þessu ári. Því til viðbótar er talið mögulegt að ala 61.000 tonn af ófrjóum laxi.

Skýr merki um erfðablöndun
Vísbendingarnar um erfðablöndun norsks ættaðs eldisfisks og náttúrulegra íslenskra laxastofna hafa komið fram í rannsókn Leós Alexanders Guðmundssonar, sérfræðings hjá Hafrannsóknastofnun, og fleiri vísindamanna, en gögnin eru enn óbirt. Í rannsókninni voru erfðagreind sýni úr 701 laxaseiði úr 16 vatnsföllum. Það var gert í ágúst 2015 og ágúst og október 2016. Auk þess voru erfðagreind sýni úr tveimur kynþroska eldislöxum sem veiddust í Mjólká í ágúst 2016, og fór vinnan fram hjá Matís.

Bráðabirgðaniðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að strokulaxar af norskum eldisuppruna hafi sloppið úr eldiskvíum, hrygnt og blandast villtum löxum í nágrenni eldissvæða, segir í skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem vísað er til rannsóknarinnar með góðfúslegu leyfi höfunda. Þar segir að „skýr merki um erfðablöndun mátti sjá í tveimur laxastofnum, í Botnsá í Tálknafirði og í Sunndalsá í Trostansfirði, sem er einn af innfjörðum Arnarfjarðar.“

Í Botnsá fundust fjórir blendingar og tvö hrein eldisseiði, öll af árgangi 2014. Sýnatakan sem bráðabirgða niðurstöðurnar byggja á var ekki umfangsmikil, en það er dregið fram sem athyglisvert í skýrslunni að helmingur greindra seiða úr Botnsá reyndist vera af eldisuppruna. Höfundar óbirtu rannsóknarinnar skýra blendingana með því að eldislax hafi hrygnt í Botnsá og æxlast með villtum löxum, og sennilega eldishrygnur og villtir hængar. Þar segir jafnframt að „hrein eldisseiði hafa hugsanlega verið afrakstur innbyrðis æxlunar strokulaxa en einnig er mögulegt að þarna hafi verið um að ræða strokuseiði úr seiðastöðinni í botni Tálknafjarðar.“

Afkvæmi strokulaxa?
Árið 2013 var tilkynnt um að 200 fullvaxta eldislaxar hefðu sloppið úr sláturkví Fjarðalax í Patreksfirði. Næsta sumar á eftir veiddist síðan 21 eldislax í ósum Kleifaár í botni Patreksfjarðar en Kleifaá er ekki náttúruleg laxveiðiá. Fiskistofa gaf í kjölfarið leyfi til netaveiða og sjóstangveiða í Patreksfirði í tilraun til þess að góma fleiri strokulaxa og alls veiddust 43 staðfestir eldislaxar til viðbótar. Höfundar leiða að því líkum að þarna hafi verið um að ræða afkvæmi þessara strokulaxa, en þeir sluppu í nóvember 2013. Þess má geta að í umfjöllun Fréttablaðsins um slysasleppinguna kom fram að Fiskistofa hafði fengið staðfest frá Fjarðalaxi að laxarnir væru sennilega nær 500 en þeirri tölu sem tilkynnt var um á sínum tíma. Fyrirtækið útilokaði að þeir gætu hafa verið fleiri en 500, en hafði áður fullyrt að laxarnir gætu ekki verið fleiri en 200 – enda hafi slátrun úr umræddri kví verið á lokastigum og nákvæmlega vitað hvað margir laxar voru eftir í kvínni.

Við greiningu Veiðimálastofnunar [nú Hafrannsóknastofnunar] í ágúst árið eftir sleppinguna kom fram að greining á stærð kynkirtla laxanna sýndi að þeir stefndu margir á hrygningu um haustið. Það virðist þeim hafa tekist þrátt fyrir að talsmenn laxeldisfyrirtækjanna teldu slíkt fjarlægan möguleika, og dæmdu slíkt tal reyndar sem hræðsluáróður, samanber umfjöllun fjölmiðla á sínum tíma.

Í umræddri rannsókn koma fram niðurstöður sem virðast benda til þess að eldislaxar gætu hafa sloppið úr sjókvíum á þessu svæði á hverju ári á árabilinu 2011-2014. Ákveðnar vísbendingar um erfðablöndun fundust í öllum seiðaárgöngum á tímabilinu 2011-2015. „Ekki er vitað um tilkynntar slysasleppingar eftir árið 2013 og þetta vekur því óneitanlega upp spurningar um það hvort minniháttar leki af strokufiski hafi orðið á hverju ári á þessu tímabili,“ segir þar. Hins vegar nefna höfundar einnig að sýnatökusvæðin hafi verið lítil og umfang meintrar erfðablöndunar gæti hæglega verið meira en sýnatakan leiddi í ljós.

Varnagli sleginn
Þó að niðurstaða höfunda sé sú að mjög sterkar vísbendingar séu um það að erfðablöndun villtra laxa og eldislaxa hafi átt sér stað þá verði að hafa hugfast að eingöngu greindist erfðablöndun í ám sem liggja næst eldissvæðum og að mjög lítil laxagengd er þar að jafnaði. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar kemur ennfremur fram að þrátt fyrir verulega aukið umfang laxeldis spáir dreifingarlíkan, sem sýnir hvernig eldislax getur dreifst frá eldissvæðum á Vestfjörðum og Austfjörðum, mjög lítilli innblöndun í öllum helstu laxveiðiám landsins, að Breiðdalsá undanskilinni. Helsta ástæðan fyrir þessari niðurstöðu er sú að eldissvæðin eru í mikilli fjarlægð frá helstu laxveiðiám og laxeldi er bannað á mjög stórum hluta strandlengjunnar. Í Noregi og Skotlandi séu eldissvæðin hins vegar oft í mikilli nálægð við helstu laxveiðiár og því verði blöndunaráhrifin mun meiri í þessum löndum.

Er tekið fram í skýrslu Hafrannsóknastofnunar að talsverð óvissa sé þó varðandi greiningu sýna og túlkun á niðurstöðum og augljóslega sé þörf á því að efla þessar rannsóknir til þess að niðurstöður séu hafnar yfir allan vafa. Því er lagt til í vöktunaráætlun sem er að finna í skýrslunni að Botnsá í Tálknafirði og Selárdalsá í Arnarfirði verði á lista yfir ár sem verði vaktaðar sérstaklega með reglulegri sýnatöku og erfðagreiningum.

[email protected]