Atvinnu- og sjávarútvegsráðuneytið í Noregi hefur skyldað útgerðir til að koma hvalafælum fyrir í þorsknetum á vertíðinni á vissum svæðum meðan á vertíð stendur frá byrjun næsta árs til aprílloka. Hvalafælurnar gefa frá sér hljóðmerki sem fælir smáhveli, einkum hnísur, frá netunum.

Eins og málum er háttað er hnísa sem meðafli í net í Noregi langt yfir þeim mörkum sem Bandaríkin setja og myndi að óbreyttu leiða til innflutningshafta á norskum sjávarafurðum.

Norska hafrannsóknastofnunin hefur gefið út að á hverju ári veiðist um 2.900 hnísur sem meðafli í þorsknet við strendur Noregs. Tilvísunarflotinn svonefndi, floti um 25 fiskiskipa sem eru í nánu samstarfi við hafrannsóknastofnunina, hefur frá haustmánuðum 2018 prófað hvalafælur við netaveiðar á þorski og skötusel. Niðurstöðurnar eru þær að með notkun fælanna hefur dregið úr hnísu í meðafla um 70-100%. Í fréttatilkynningu á vef norsku ríkisstjórnarinnar, www.regjeringen.no, segir að niðurstöðurnar séu í takt við niðurstöður annarra alþjóðlegra rannsókna.

„Jafnvel þótt þessi skylda feli í sér einskiptiskostnað fyrir útgerðir tel ég hana mikilvægt skref til að tryggja velferð sjávarspendýra. Um leið mun þetta draga úr skemmdum á veiðarfærum,“ segir Odd Emil Ingebrigtsen sjávarútvegsráðherra.