Samtök sjómanna hafa birt áminningu til stjórnvalda vegna þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar.

Þar segir:

„Að undanförnu hefur í nokkur skipti ekki verið hægt að sækja veika og slasaða sjómenn á haf út nema að 20 sjómílum frá landi. Einnig hefur komið fyrir að engin þyrla sé til taks þegar þörf er á. Nú síðast í fyrradag vegna alvarlegs umferðarslyss. Þegar ein þyrla er til taks fer hún ekki út fyrir 20 sjómílur frá strönd. Ef skip eru utan 20 sjómílna markanna þurfa þau að sigla til móts við þyrlu með hinn slasaða eða veika. Mínútur skipta máli í þessu sambandi hvað þá klukkustundir eins og dæmi eru um. Samtök sjómanna minna á skýrslu Ríkisendurskoðunar um Landhelgisgæslu Íslands - úttekt á verkefnum og fjárreiðum.“

Enn fremur segir að um „grafalvarlegt mál“ sé að ræða sem getur skipt sköpum fyrir líf og heilsu íslenskra sem og erlendra sjómanna.

„Það er því skýlaus krafa samtaka sjómanna að stjórnvöld sjái til þess að LHG hafi nægt rekstrarfé til að manna alltaf tvær þyrlur og að þær séu til taks öllum stundum. Dæmin sanna svo ekki verður um villst að nauðsynlegt er fyrir sjómenn þessa lands að „sjúkrabíll“ hafsins nái til þeirra sem aðstoð þurfa á sem skemmstum tíma alla daga ársins. Ekki hluta úr ári og alls ekki þegar engin þyrla er til taks. Samtök sjómanna minna á að flugmenn LHG eru með lausa kjarasamninga sem hafa verið lausir í álíka tíma og kjarasamningar sjómanna. Það er ólíðandi og til skammar að ríkisvaldið sjái ekki sóma sinn í að semja við flugmenn LHG.“

Undir áminninguna rita:

Árni Sverrisson, Félagi skipstjórnarmanna

Guðmundur Helgi Þórarinsson, VM Félagi vélstjóra og málmtæknimanna

Valmundur Valmundsson, Sjómannasambandi Íslands

Einar Hannes Harðarson, Sjómanna- og vélstjórafélagi Grindavíkur

Bergur Þorkelsson, Sjómannafélagi Íslands