Það er ekki hlaupið að því að breyta fiskveiðireglum Evrópusambandsins ef upp koma óvænt atvik. Vegna óvenjulegrar kuldatíðar í Norður-Evrópu í vetur hefur óveður, frost og ís hamlað veiðum fiskimanna við Eystrasalt.
Því fóru Samtök fiskimanna við Eystrasalt, með forsvarsmann danskra sjómanna í broddi fylkingar, fram á það við framkvæmdastjórn ESB að aflétt yrði árlegu veiðibanni í Vestur-Eystrasalti í apríl sem sett er til að vernda hrygningarþorsk.
Stofnun sjávarútvegsstjóra ESB svaraði fiskimönnunum á þann veg að þótt fullur skilningur væri á vandamálinu myndi nauðsynlegur samráðsferill innan sambandsins taka miklu lengri tíma en fram í apríl. Bent var á að sameiginlegur ákvörðunarferill með Evrópuþinginu sem kveðið væri á um í Lissabon sáttmálanum myndi taka tvo til fimm mánuði.
Samtök danskra fiskimanna vildu ekki una þessari niðurstöðu og báðu danska sjávarútvegsráðuneytið að taka málið upp við framkvæmdastjórn ESB. Danska stjórnin fékk sama svarið: Ekki væri hægt að breyta fiskveiðistjórnunarreglunum í Eystrasalti nema með samþykki ráðherraráðs ESB og Evrópuþingsins. Eina leiðin til að bregðast við ástandi eins og þessu væri að gera ráð fyrir því þegar reglurnar væru upphaflega settar.
Vefur World Fishing skýrir frá þessu.