„Við getum nú orðið framleitt fóður án sjávarafurða.“ segir Trygve Berg Lea, sjálfbærnistjóri hjá Skretting, í viðtali við Undercurrent News. „Þannig að ef fiskimennirnir geta á endanum ekki unnið saman og stjórnvöld finna ekki lausnina, þá getum við í raun komist af án þeirra.“
Skretting er norskt fyrirtæki sem framleiðir fóður og notar til þess fiskimjöl sem að stórum hluta er unnið úr kolmunna og öðrum uppsjávartegundum. Skretting er leiðandi fyrirtæki í fóðurframleiðslu á heimsvísu og einn af stærstu kaupendum fiskimjöls á Norðurlöndunum.
MSC-vottun uppsjávarveiða í Norðvestur-Atlantshafi hefur staðið tæpt, makrílvottunin er fallin og kolmunni og síld stefna í sömu átt síðar á árinu eða í byrjun þess næsta. Vandinn er sá að strandríkin hafa ekki getað komið sér saman um skiptingu aflans, með þeim afleiðingum að árum saman hefur verið veitt verulega umfram ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins.
Kaupendur fóðurs gera strangar vottunarkröfur, þannig að falli kolmunnavottunin sitja fóðurframleiðendur uppi með markaðsvanda.
Ónothæf vara
Undercurrent News hefur eftir Lea að ekki yrði hægt að nýta fiskimjöl úr óvottuðum kolmunna, en fóður úr því er notað í stórum stíl í fiskeldi bæði í Evrópu og víðar.
„Það er býsna alvarlegt vegna þess að þetta er um helmingurinn af öllu fiskimjöli sem framleitt er í Noregi, Danmörku, Bretlandi og Íslandi.“
Hjá Skretting eru menn því farnir að svipast um eftir öðru hráefni. Perúansjósan kæmi til greina þegar fram líða stundir þar sem Perúmenn vinna nú hörðum höndum að því að fá þær veiðar vottaðar. Önnur hráefni, sem ekki eru sjávarafurðir, koma einnig til greina en þau eru enn sem komið er dýrari en fiskimjöl og lýsi. Það væri samt mögulegt og þangað myndi Skretting leita ef þörf krefði.
Skretting leggur þó enn áherslu á að fá strandríkin til að semja.
„Ég hugsa að bæði við hjá Skretting og aðrir í geiranum muni reyna að hafa áhrif á þetta með því að hvetja strandríkin til að setjast niður og færa aflann að ráðgjöfinni,“ segir Lea.