Íslensk stjórnvöld hafa enn á ný ítrekað réttindi sín á hafsvæðinu í kringum Rockall klettinn sem þau telja tilheyra landgrunni Íslands í samræmi við ákvæði hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Kemur þetta í kjölfar viðbragða breskra stjórnvalda við togveiðum Íra á svæðinu 10. júní síðastliðinn þegar skosk stjórnvöld hótuðu að innleiða 12 sjómílna landhelgi í kringum klettinn.
Rockall er óbyggð eyja í Norður-Atlantshafi, um 460 km vestur af Skotlandi. Hún er 27 metrar í þvermál og 23 metrar þar sem hún er hæst. Hún er innan efnahagslögsögu Bretlands og Bretar vildu lengi nota kletinn sem viðmiðunarpunkt og reikna 200 mílna efnahagslögsögu út frá honum. Þeir gáfu þá kröfu hinsvegar upp á bátinn þegar þeir samþykktu Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna 1997 sem tók gildi sama ár en Íslendingar höfðu þegar fullgilt hann árið 1985.
Deilt er um hver eigi landgrunnsréttindi á svæðinu vestur af Rockall. Réttindi sem geta veitt ríkjum einkarétt á nýtingu auðlinda sem hugsanlega finnast á eða undir sjávarbotnum, þ.m.t. olía eða gas.
4 þjóðir með tilkall til yfirráða
Í yfirlýsingu sem utanríkisráðuneytið hefur sent frá sér segir að í tengslum við tilkall sem Bretar, Írar, Danir ásamt Færeyingum hafa gert til Hatton-Rockall svæðisins hafi það verið áréttað svæðið tilheyri landgrunni Íslands.
„Ágreiningur er því um Hatton-Rockall svæðið sem hefur það í för með sér, samkvæmt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, að Nefnd um mörk landgrunnsins [sem stofnað var til á grunni Hafréttarsáttmálans] getur ekki tekið tillit til tilkalls þessara þjóða nema önnur ríki sem málið varðar hafi veitt samþykki sitt. Ísland hefur ekki veitt sitt samþykki enda myndi það ganga gegn landgrunnsrétti Íslands á þessu svæði.“
Írsk stjórnvöld hafa lýst þeirri skoðun að ekkert land geti gert tilkall til yfirráða á svæðinu. Á Hatton-Rockall svæðinu eru auðug fiskimið og þar hafa íslensk uppsjávarskip veitt úr sameiginlegum stofni kolmunna til margra ára.
Auk Bretlands, Írlands og Íslands gerir Danmörk tilkall til yfirráða á svæðinu fyrir hönd Færeyja.