Útflutningur á ferskum eldislaxi frá Skotlandi jókst um 13% á fyrstu fimm mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra, að því er fram kemur á vefnum fis.com.

Frá janúar til maí fluttu Skotar út lax fyrir 150 milljónir punda (27,6 milljarða ISK) miðað við 132 milljónir á sama tíma árið 2012. Stærsti markaðurinn er í Bandaríkjunum en Bandaríkjamenn keyptu skoskan lax fyrir 74 milljónir punda (13,6 milljarðar ISK).

Mikill hugur er í Skotum að efla fiskeldi og nemur fimm ára fjárfesting í greininni um 205 milljónum punda (37,8 milljörðum ISK).