Richard Lochhead, sjávarútvegsráðherra Skota, hefur varpað fram þeirri hugmynd að sáttasemjari verði fenginn til að miðla málum í makríldeilu ESB og Noregs annars vegar og Íslands og Færeyja hins vegar.
Lochhead lét þessa skoðun sína í ljós í viðræðum við fiskveiðinefnd ESB í Brussel í dag. Hann sagði að alþjóðlegur sáttasemjar gæti verið nauðsynlegur til að höggva á hnútinn í deilunni og koma skriði á samningaviðræður.
Ráðherrann vill þó sem fyrr að Ísland og Færeyjar verði beitt viðskiptaþvingunum vegna makrílveiða sinna. Hann segist hins vegar vera tilbúinn til leita jafnframt nýrra leiða ef þær mættu leiða til samkomulags og tryggja sjálfbærar veiðar.
Lochhead biður aðra sjávarútvegsráðherra innan ESB að taka þessa hugmynd til alvarlegrar skoðunar. Hann æltar einnig að rita Maríu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB, bréf og óska eftir áliti hennar á þessari hugmynd.