Félag skipstjórnarmanna skorar á stjórnvöld að nýta þær hagstæðu aðstæður sem til staðar eru í gengismálum til að festa kaup á þyrlum fyrir Landhelgisgæslu Íslands. Ályktun þar að lútandi var samþykkt á fjölmennum fundi 30. desember sl.
"Við blasir að í kjölfar gríðarlegs samdráttar í norskum olíuiðnaði hefur þörf fyrir þyrlur dregist saman og verð lækkað. Sýnt hefur verið fram á að útgjöld ríkisins vegna leigu á þyrlum eru meiri en þær afborganir sem inna þyrfti af hendi ef keyptar yrðu þyrlur í stað þeirra sem leigðar eru dýrum dómum," segir í ályktuninni.