Hvalaskoðunarsamtök Íslands skora á stjórnvöld að afturkalla reglugerð sjávarútvegsráðherra sem heimilar hvalveiðar næstu fimm árin. Eins að hefja strax vinnu við að meta þjóðhagsleg áhrif hvalveiða.

Ályktun þessa efnis var samþykkt á aðalfundi Hvalaskoðunarsamtakanna á Húsavík sem haldinn var 15. mars.

Þá ítrekar aðalfundur Hvalaskoðunarsamtakanna kröfu sína um að raunverulegt hagsmunamat fari fram þar sem fullt tillit sé tekið til hagsmuna hvalaskoðunar, ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina áður en frekari hvalveiðar fara fram við Ísland.

Fundurinn skorar jafnframt á samgönguráðherra að sjá til þess að breytingar verði gerðar á siglingasviði Samgöngustofu „með tilliti til þjónustustigs, bættrar þjónustu við ferðaþjónustufyrirtæki og lausnamiðaðri vinnubragða.“

Ísland ekki í handbók

Í fréttatilkynningunni segir að síðastliðið haust kom út handbók Alþjóðahvalveiðiráðsins um hvalaskoðun á alþjóðavísu. Ísland, stærsta hvalaskoðunarland í Evrópu, er ekki að finna í handbókinni vegna þeirrar afstöðu stjórnvalda að ekki megi ræða málefni hvalaskoðunar á vettvangi ráðsins. Þessu mótmæla Hvalaskoðunarsamtökin harðlega. Þá ítrekar aðalfundur Hvalaskoðunarsamtakanna þann vilja samtakanna að fá fulltrúa í sendinefnd Íslands hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu í ljósi aukins vægis sem hvalaskoðun hefur fengið í umfjöllun ráðsins og á alþjóðavísu.

Samtökin hvetja stjórnvöld til að endurskoða fyrir alvöru stefnu Íslands í hvalveiðimálum.

„Það er löngu tímabært að þau viðurkenni hvalaskoðun sem raunverulega nýtingu hvalastofna við landið og að endurskoðun hvalveiðistefnunnar taki mið af því,“ segir í fréttatilkynningu.