Niðurstöður könnunar Hafrannsóknastofnunar á ígulkeramiðum í Seyðisfirði og Hestfirði í Ísafjarðardjúpi liggur fyrir. Víða fannst töluvert af ígulkerjum og þau í ágætri stærð.

Í Seyðisfirði fannst skollakoppur á öllum stöðvum en í mismiklu magni. Flest ígulkerin voru álitin yfir löndunarstærð. Í Hestfirði fannst skollakoppur á þremur stöðvum og flest kerin yfir löndunarstærð. Mikið var af kóralþörungi á tveimur af þessum þremur stöðvum en þeir mynda afar viðkvæm og fjölbreytilegt búsvæði með hátt verndargildi. Þau eru talin mikilvæg fyrir ungviði nytjastofna og ætti því ekki að stunda plógveiðar á þeim, að mati Hafrannsóknastofnunar.

Japanir kaupa

Í nýútkominn skýrslu um rannsóknina segir að hrogn ígulkera hafa verið nýtt til manneldis öldum saman, víða um heim. Síðan um miðja síðustu öld hefur langstærsti markaðurinn fyrir hrognin verið í Japan. Veiðar annars staðar í heiminum jukust mikið um 1975 þegar verulega tók að halla undan fæti fyrir ígulkerastofnum í Suðaustur‐Asíu vegna ofveiði, samhliða aukinni eftirspurn, sérstaklega í Japan. Helstu veiðiþjóðir á síðustu áratugum hafa verið Sílemenn, Japanir, Bandaríkjamenn, Rússar og Kanadamenn. Eftir miðjan níunda áratuginn hófust veiðar á ígulkerinu skollakoppi við Atlantshafsströnd Bandaríkjanna og Kanada. Eftir 1990 jukust þær veiðar til muna þegar Japansmarkaður opnaðist fyrir innflutningi á skollakoppi.

Kafarar á veiðum

Tilraunaveiðar við Ísland hófust árið 1983 og voru stundaðar af köfurum í örfá ár. Árið 1993 hófust síðan ígulkeraveiðar að nýju og nú með plógi og var aflinn seldur á Japansmarkað. Skollakoppur er eina ígulkerategundin sem hefur verið nýtt hérlendis. Árið 1998 hrundi Japansmarkaður og stöðvuðust þar með veiðar hérlendis. Árið 2004 hófust veiðar að nýju í innanverðum Breiðafirði, en litlu var landað.

Veiðiráðgjöf var í fyrsta sinn veitt árið 2016 en þá aðeins fyrir aðalveiðisvæðið í Breiðafirði. Ráðlagt aflamark var 250 tonn á afmörkuðu svæði í Breiðafirði en veiðar utan þess svæðis voru frjálsar. Síðan í október 2019 hafa tilraunaveiðar farið fram víða um land.

Ýmsar rannsóknir á skollakoppi hafa verið gerðar hérlendis í gegnum tíðina og aðallega beinst að nýtingarmöguleikum, stofnstærð, útbreiðslu og kynþroskaferli og hrygningu í Breiðafirði.