Sjávarútvegsskóli unga fólksins hefur starfað frá árinu 2013. Fyrsta árið voru nemendur rúmlega 20 en nú í sumar voru þeir 360. Fiskeldisskóli unga fólksins hóf svo starfsemi sína í sumar og voru nemendur þar 22.
„Fyrstu árin var Sjávarútvegsskóli unga fólksins rekinn á vegum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað,“ segir Guðrún Arndís Jónsdóttir, forstöðumaður Sjávarútvegsmiðstöðvar Háskólans á Akureyri.
Sjávarútvegsmiðstöðin tók við umsjón skólans árið 2016 og árið 2017 og var kennslustöðum fjölgað og byrjað að kenna á Norðurlandi.
Nú í sumar var kennt á fimm stöðum á Austurlandi, fjórum stöðum á Norðurlandi og í Reykjavík, en auk Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar taka sjávarútvegsfyrirtæki og vinnuskólar byggðarlaga þátt í rekstrinum.
Starfsemin hefur því aukist jafnt og þétt og nú í sumar var Fiskeldisskóli unga fólksins haldinn í fyrsta sinn, og var kennt á tveimur stöðum.
„Við erum að byrja að feta okkur áfram með Fiskeldisskólann fyrir austan og vestan þar sem laxeldi í sjó er umfangsmest. Við kenndum bæði í Vesturbyggð/Tálknafirði og á Djúpavogi í sumar,“ segir Guðrún.
Fræðsla og leikir
Nemendur fengu bóklega fræðslu í formi fyrirlestra og leikja. Þeir heimsóttu fyrirtæki í sjávarútvegi og fiskeldi svo og fyrirtæki í tengdum greinum. Námsfyrirkomulag var breytilegt eftir byggðarlögum þ.e. það er mismunandi hvað hvert byggðarlag býður upp á varðandi heimsóknir. Nemendur Fiskeldisskólans á Djúpavogi fengu að fara út í kvíar og heimsækja vinnslu Búlandstinds. Í Vesturbyggð skoðuðu þau seiðaeldisstöð Arctic fish og fóru í heimsókn í Arnarlax og Odda hf.
Nemendur Sjávarútvegsskólans fengu m.a. að skoða fiskiskip, skoða fiskvinnslur, netagerðir og fengu fræðslu björgunarsveita þau lærðu að meta gæði fisks með skynmati. Gestafyrirlesarar komu í heimsókn og fræddu nemendur um sjávarútveg og ýmislegt honum tengt.
Kennt var 4-5 tíma á dag í báðum skólunum nokkra daga í viku. Kennarar voru bæði útskrifaðir nemendur úr sjávarútvegsfræði og líffræði við Háskólann á Akureyri, og einnig nemendur sem eru enn í námi við háskólann.
Sjö kennarar
„Ég var með sjö kennara núna í sumar í fullu starfi í tvo mánuði, þannig að við erum að skapa fullt af sumarvinnu hérna,“ segir Guðrún. „Þessir nemendur fá svo hugsanlega vinnu í kjölfarið hjá þeim fyrirtækjum sem taka þátt í verkefninu. Slíkt hefur gerst.“
Fiskeldisskóli unga fólksins er líka partur af Erasmus + samstarfsverkefni fjögurra landa um nám í fiskeldi "BRIDGES" og er undir merkjum Evrópusambandsins, en þátttökulöndin eru Noregur, Finnland, Svíþjóð og Ísland.
„Þetta verkefni fór í gang í nóvember 2020 en covid hefur aðeins sett strik í reikninginn. Við höfum bara notað netið, en þetta verkefni verður ábyggilega nokkuð stór liður í starfsemi Sjávarútvegsmiðstöðvarinnar.“