Stjórnendur íslenskra fiskvinnslna sem ekki eru í útgerð hafa kvartað undan skakkri samkeppnisstöðu við fiskvinnslu í Evrópulöndum og sölu á óunnum fiski úr landi sem er unninn í styrkjaumhverfi Evrópusambandsins og í allt öðru launaumhverfi sem leiði til undirboða í verðum. Sá fiskur sé einnig síðri vara og geti skaðað orðspor íslenskra sjávarafurða. Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs, segir að staðan hafi verið sérstaklega slæm fyrir um tveimur árum síðan.

Stórar vinnslur lagt upp laupana

Fiskifréttir sögðu frá því í maí 2022 að samkvæmt heimildum væri útflutningur á óunnum fiski allt að 80 þúsund tonnum á ári. Rúnar sagði þá að frjálsum fiskvinnslum hefði fækkað hratt á síðustu árum og nefndi þar til sögunnar gamalgróin fyrirtæki eins og Frostfisk, Toppfisk og Ísfisk, allt vinnslur með um 100 starfsmenn sem höfðu lagt upp laupana. Þetta skrifist að verulegu leyti á reikning útflutnings á heilum fiski sem er óheftur með öllu. Þessi fiskur sé fluttur inn til landa Evrópusambandsins, unninn þar í niðurgreiddum vinnslum í láglaunaumhverfi.

Rúnar sagði þá að skipta mætti markaðnum upp í þrennt, og ekkert hefur breyst síðan það var sagt. Í fyrsta eru það þeir sem eru með sína eigin útgerð og fá hráefnið þar af leiðandi á verðlagsstofuverði. Í öðru lagi frjálsar vinnslur sem fái sitt hráefni á markaðsverði. Í þriðja lagi sé það útflutningur á heilum fiski. Frjálsu vinnslurnar séu því annars vegar að keppa við verðlagsstofuverð og hins vegar við niðurgreiddar vinnslur í Evrópusambandinu.

„Við kveinkum okkur ekki yfir samkeppni en okkur finnst að hún eigi að vera á jafnréttisgrundvelli,“ sagði Rúnar í maí 2022. Hann segir að sér sýnist lítið hafa breyst í þessum efnum á þessum tveimur árum. Öll fiskvinnsla í löndum Evrópusambandsins sé styrkt kröftuglega og launaumhverfið í þessum löndum sé allt annað og lægra en hér á landi.

Fáar stórar sjálfstæðar vinnslur eftir

„Erlendar vinnslur eru oft að undirbjóða íslenskan fisk í verðum og samkeppni af þessu tagi hefur valdið því að sjálfstæðum vinnslum hefur snarlega fækkað og þær eru mjög fáar eftir. Sjálfstæðar vinnslur sem eru með um og yfir 100 manns í vinnu eru ekki nema tvær eftir í landinu,“ segir Rúnar.

Þessar tvær vinnslur eru Íslenskt sjávarfang og Erik the Red Seafood í Keflavík. Íslenskt sjávarfang vinnur um 10.000 tonn af fiski á ári og starfsmenn eru nálægt 100 talsins í Kópavogi og 25 á Þingeyri. Rúnar segir að starfsemin gangi þrátt fyrir allt ágætlega í þessu umhverfi sem stafi meðal annars af því að færri innlendar vinnslur eru í samkeppni um fisk sem boðinn er upp á fiskmörkuðum. Rúnar segir ljóst að útflutningur á óunnum fiski minnki aðgengi innlendrar fiskvinnslu að hráefni og þá séu þessar erlendu vinnslur í beinni samkeppni um sölu á íslenskum fiski á erlendum mörkuðum.

Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs.
Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs.

Skaðar áratuga markaðsstarf

„Það er sótt inn á sömu markaði og meira segja nú inn á markað eins og Portúgal. Það fer heill fiskur til Portúgals sem er unninn þar í samkeppni við íslenskan saltfisk. Það er því ekki eingöngu verið að selja heilan fisk til Litháens og Póllands þótt stærstu markaðirnir fyrir óunninn fisk séu Pólland, Litháen, Holland og Portúgal en annars dreifist hann víðar í vinnslu, eins og t.d. til Þýskalands og Frakklands líka,“ segir Rúnar.

Hann segir að fiskurinn sé upprunamerktur Íslandi þótt alls ekki sé um sömu vöru að ræða. Útflutningurinn skaði því áratuga markaðsstarf fyrir íslenskan fisk. Þetta sé ekki sama vara og komi frá innlendum vinnslum heldur orðinn talsvert eldri þegar hann loks fer í vinnslu erlendis og síðan á borð neytenda. Þetta geti komið niður á orðspori íslenskra sjávarafurða.

„Um þetta hefur svo sem verið rætt margoft en það eru engin viðbrögð frá ráðamönnum. Ég átta mig ekki alveg á því hvað veldur því. Það hljóta að vera sterk áhrifaöfl sem koma í veg fyrir að brugðist verði við þessum óhefta útflutningi.“

Kvótaaukning til útgerða og innlendrar vinnslu

Rúnar segir að það fyrsta sem væri til ráða innlendri fiskvinnslu til varnar sé að ráðamenn þjóðarinnar viðurkenni vandann. Hagsmunasamtök fiskvinnslufyrirtækja án útgerðar heita nú Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda en Íslenskt sjávarfang hefur ekki séð hagsmunum sínum borgið að vera innan samtakanna sem helgast meðal annars af því „að þar eru komnir inn útflytjendur á heilum fiski sem við teljum okkur ekki eiga samleið með,“ segir Rúnar.

Hann rifjar upp að á árum áður hafi aflaheimildir þeirra sem seldu fisk óunninn úr landi skerst um 10%. „Það mætti kannski reyna að fara öfuga leið núna og bæta í kvóta þeirra sem vinna fiskinn eða þeirra útgerða sem selja fiskinn til vinnslu innanlands. Ef menn vilja leysa vandann eru til margar útfærslur að lausnum,“ segir Rúnar

Stjórnendur íslenskra fiskvinnslna sem ekki eru í útgerð hafa kvartað undan skakkri samkeppnisstöðu við fiskvinnslu í Evrópulöndum og sölu á óunnum fiski úr landi sem er unninn í styrkjaumhverfi Evrópusambandsins og í allt öðru launaumhverfi sem leiði til undirboða í verðum. Sá fiskur sé einnig síðri vara og geti skaðað orðspor íslenskra sjávarafurða. Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs, segir að staðan hafi verið sérstaklega slæm fyrir um tveimur árum síðan.

Stórar vinnslur lagt upp laupana

Fiskifréttir sögðu frá því í maí 2022 að samkvæmt heimildum væri útflutningur á óunnum fiski allt að 80 þúsund tonnum á ári. Rúnar sagði þá að frjálsum fiskvinnslum hefði fækkað hratt á síðustu árum og nefndi þar til sögunnar gamalgróin fyrirtæki eins og Frostfisk, Toppfisk og Ísfisk, allt vinnslur með um 100 starfsmenn sem höfðu lagt upp laupana. Þetta skrifist að verulegu leyti á reikning útflutnings á heilum fiski sem er óheftur með öllu. Þessi fiskur sé fluttur inn til landa Evrópusambandsins, unninn þar í niðurgreiddum vinnslum í láglaunaumhverfi.

Rúnar sagði þá að skipta mætti markaðnum upp í þrennt, og ekkert hefur breyst síðan það var sagt. Í fyrsta eru það þeir sem eru með sína eigin útgerð og fá hráefnið þar af leiðandi á verðlagsstofuverði. Í öðru lagi frjálsar vinnslur sem fái sitt hráefni á markaðsverði. Í þriðja lagi sé það útflutningur á heilum fiski. Frjálsu vinnslurnar séu því annars vegar að keppa við verðlagsstofuverð og hins vegar við niðurgreiddar vinnslur í Evrópusambandinu.

„Við kveinkum okkur ekki yfir samkeppni en okkur finnst að hún eigi að vera á jafnréttisgrundvelli,“ sagði Rúnar í maí 2022. Hann segir að sér sýnist lítið hafa breyst í þessum efnum á þessum tveimur árum. Öll fiskvinnsla í löndum Evrópusambandsins sé styrkt kröftuglega og launaumhverfið í þessum löndum sé allt annað og lægra en hér á landi.

Fáar stórar sjálfstæðar vinnslur eftir

„Erlendar vinnslur eru oft að undirbjóða íslenskan fisk í verðum og samkeppni af þessu tagi hefur valdið því að sjálfstæðum vinnslum hefur snarlega fækkað og þær eru mjög fáar eftir. Sjálfstæðar vinnslur sem eru með um og yfir 100 manns í vinnu eru ekki nema tvær eftir í landinu,“ segir Rúnar.

Þessar tvær vinnslur eru Íslenskt sjávarfang og Erik the Red Seafood í Keflavík. Íslenskt sjávarfang vinnur um 10.000 tonn af fiski á ári og starfsmenn eru nálægt 100 talsins í Kópavogi og 25 á Þingeyri. Rúnar segir að starfsemin gangi þrátt fyrir allt ágætlega í þessu umhverfi sem stafi meðal annars af því að færri innlendar vinnslur eru í samkeppni um fisk sem boðinn er upp á fiskmörkuðum. Rúnar segir ljóst að útflutningur á óunnum fiski minnki aðgengi innlendrar fiskvinnslu að hráefni og þá séu þessar erlendu vinnslur í beinni samkeppni um sölu á íslenskum fiski á erlendum mörkuðum.

Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs.
Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs.

Skaðar áratuga markaðsstarf

„Það er sótt inn á sömu markaði og meira segja nú inn á markað eins og Portúgal. Það fer heill fiskur til Portúgals sem er unninn þar í samkeppni við íslenskan saltfisk. Það er því ekki eingöngu verið að selja heilan fisk til Litháens og Póllands þótt stærstu markaðirnir fyrir óunninn fisk séu Pólland, Litháen, Holland og Portúgal en annars dreifist hann víðar í vinnslu, eins og t.d. til Þýskalands og Frakklands líka,“ segir Rúnar.

Hann segir að fiskurinn sé upprunamerktur Íslandi þótt alls ekki sé um sömu vöru að ræða. Útflutningurinn skaði því áratuga markaðsstarf fyrir íslenskan fisk. Þetta sé ekki sama vara og komi frá innlendum vinnslum heldur orðinn talsvert eldri þegar hann loks fer í vinnslu erlendis og síðan á borð neytenda. Þetta geti komið niður á orðspori íslenskra sjávarafurða.

„Um þetta hefur svo sem verið rætt margoft en það eru engin viðbrögð frá ráðamönnum. Ég átta mig ekki alveg á því hvað veldur því. Það hljóta að vera sterk áhrifaöfl sem koma í veg fyrir að brugðist verði við þessum óhefta útflutningi.“

Kvótaaukning til útgerða og innlendrar vinnslu

Rúnar segir að það fyrsta sem væri til ráða innlendri fiskvinnslu til varnar sé að ráðamenn þjóðarinnar viðurkenni vandann. Hagsmunasamtök fiskvinnslufyrirtækja án útgerðar heita nú Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda en Íslenskt sjávarfang hefur ekki séð hagsmunum sínum borgið að vera innan samtakanna sem helgast meðal annars af því „að þar eru komnir inn útflytjendur á heilum fiski sem við teljum okkur ekki eiga samleið með,“ segir Rúnar.

Hann rifjar upp að á árum áður hafi aflaheimildir þeirra sem seldu fisk óunninn úr landi skerst um 10%. „Það mætti kannski reyna að fara öfuga leið núna og bæta í kvóta þeirra sem vinna fiskinn eða þeirra útgerða sem selja fiskinn til vinnslu innanlands. Ef menn vilja leysa vandann eru til margar útfærslur að lausnum,“ segir Rúnar