Grænlenska stjórnin hefur samþykkt tillögu Finns Karlsens, sjávarútvegs- og auðlindaráðherra, um hvernig staðið verði að því að úthluta 100 þúsund tonna makrílkvóta Grænlendinga.

Finn Karlsen hefur látið útbúa forgangslista um hvernig skipta eigi makrílkvóta upp á 100 þúsund tonn sem veiddur er í grænlensku lögsögunni undan Austur-Grænlandi. Efst í forgangsröðina eru sett grænlensk veiðiskip eða önnur skip sem eru leigð án áhafnar til veiðanna. Þessi skip fá kvóta í samræmi við veiðigetu.

Næst koma umsækjendur sem ekki eru með eigin skip. Útgerðarfyrirtæki sem uppfylla kröfur um eignarhald, það er að vera að tveimur þriðju hlutum í eigu Grænlendinga og að Grænlendingar séu í meirihluta í áhöfn eða hafi forgang að vinnu um borð. Þessi fyrirtæki mega nota leiguskip og fá úthlutað makrílkvóta eftir veiðigetu.

Frá þessu er skýrt á vef RÚV . Þar er jafnframt minnt á að íslenskar útgerðir hafi að undanförnu í nokkrum mæli keypt sig inn í grænlensk útgerðarfyrirtæki og selt þangað veiðskip. Þau fái væntanlega fá hlutdeild í grænlenska makrílkvótanum.