Ísfisktogarar Bergs-Hugins í Vestmannaeyjum, Bergey VE og Vestmannaey VE, komu til löndunar sl. mviðvikudag. Bæði skipin voru með fullfermi af stórum og fallegum ufsa.

Frá aflabrögðum og viðbrögðum vegna óvissu covid 19 faraldursins segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Þar segir:

Vestmannaey fékk aflann á Selvogsbankanum en Bergey rétt fyrir austan Eyjar. Núna liggja bæði skipin í höfn og er ástæðan tvíþætt; annars vegar slæm veðurspá fram yfir helgi og hins vegar sú óvissa sem ríkir á ferskfiskmörkuðum vegna Covid 19.

Hvað veðrið varðar þá eru tvær lægðir væntanlegar um helgina og ölduspá er afar slæm. Hvað markaðsaðstæðurnar varðar þá hefur eftirspurn eftir ferskum fiski á hefðbundnum mörkuðum hrunið. Verslanir vilja helst frosna vöru og veitingahús eru flest lokuð.

Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins, segir að langmest af fiskinum sem skipin hafa borið að landi tvær síðustu vikurnar hafi farið til vinnslu hér heima og er hann unninn í Vestmannaeyjum, Seyðisfirði, Neskaupstað, Dalvík og Akureyri. Nú er beðið og fylgst með stöðunni á mörkuðunum erlendis. Spurningin er hvernig hún verður eftir helgi. Bergur-Huginn sendi reyndar út einn lítinn gám til Englands í vikunni en það var fyrst og fremst gert til að viðhalda tengslum.