Breki VE, nýr ísfisktogari Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, er nú í sinni sjöttu veiðiferð eftir að hann kom nýr til landsins eftir langa siglingu frá Kína síðastliðið vor. Talsverða athygli vakti á sínum tíma hve miklar tafir urðu á afhendingu skipsins en þær virðast hafa verið þess virði því skipið er strax farið að skila miklum verðmætum á land.

[email protected]

Á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar er því einnig haldið fram að Breki veiði á við þau tvö skip sem hann leysir af hólmi en brenni einungis þriðjungi af olíu eins skips. Magnús Ríkharðsson skipstjóri var ekki alveg tilbúinn að taka undir þetta og sagði það ekki alveg á sínu sérfræðisviði að úttala sig um það. Hann kveðst hins vegar mjög ánægður með nýja skipið sem hann fékk fyrst að kynnast í rúmlega mánaðarlangri siglingu um 11.300 sjómílna leið frá Kína til Íslands sem hófst 22. mars síðastliðinn. 6. maí sigldi fleyið svo inn til Friðarhafnar í Vestmannaeyjum, tæplega tveimur árum eftir umsaminn afhendingartíma. Kaupverð skipsins var um 1,2 milljarðar króna og var þetta fyrsta nýsmíði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

Veitt með tveimur trollum

„Það tekur tíma að kynnast nýju skipi en við fengum ágætt ráðrúm til þess á heimsiglingunni frá Kína. En núna erum við farnir að vinna með allan búnaðinn um borð og það fer bara vel af stað. Við höfum að uppistöðu verið að veiða karfa og ufsa og sótt aðallega hérna í kringum Eyjar, vestur í Skerjadýpið og við fórum einn túr á Vestfjarðamið og vorum þar í ufsa og blönduðum afla,“ segir Magnús.

Hann finnur mikinn mun á því að stýra Breka VE en Drangavík VE sem hann stýrði áður. Breki sé mun stærra og öflugara skip og sjóhæfni þess mikil. Það fari mun betur með mannskapinn og auk þess sé mikill kostur að geta fiskað með tveimur trollum. Veiðigetan sé fyrir vikið mun meiri og undir vissum kringumstæðum tvöfalt meiri.

Aflinn farið vaxandi

„Skipið kemur mjög vel út hvað varðar eyðslu en um leið toggetu. En það eru ekki mín orð að hann veiði á við tvo en brenni þriðjungi af olíu en þetta er mat þeirra sem best þekkja til. Þetta hafa verið mislangir túrar og ekki hafa þeir allir verið fullfermistúrar. En aflinn hefur farið vaxandi. Ég held að mannskapurinn sé mjög sáttur. Skipið fer vel með okkur og er búið öllum nútíma þægindum. Við erum ennþá aðeins að sníða af agnúa í vinnslunni og ná upp afköstum og það er bara ljómandi gangur í þessu. Það var sett upp flott vinnslukerfi frá Vélaverkstæðinu Þór. Þetta gengur allt út á það að kæla fiskinn niður og koma honum forkældum niður í lest. Lestin er mjög þægileg og vel hönnuð. Þar er margt sem léttir störfin og menn þurfa minna að bogra en áður,“ segir Magnús.

Getur orðið mikið aflaskip

Þegar skipið dregur tvö troll eyðir það að jafnaði 250-280 lítrum á klukkustund við 60% álag í sæmilegu veðri.

Magnús segir aflabrögð hafa verið ágæt undanfarið. Ágætlega hafi gengið að ná í karfa en erfiðara hefur verið að ná þorski en verið hefur. Allt sé þetta breytingum háð. Nú til dæmis farið að ganga betur að ná ufsa sem hafði verið erfitt að ná áður. Mikil kvótaaukning var í ýsu en menn hafa lítið orðið varir við mikið magn ýsu á togurunum. Kvartað hefur verið undir rólegheitum í makrílveiðum og Magnús segir að þeir á Breka hafi minna orðið var við makrílflekki en áður. Sjórinn sé kaldari og þetta sumarið hafi vantað meira sólskin til að verma yfirborð sjávar.

Túrarnir hafa verið frá þremur upp í fimm sólarhringa. Magnús segir byrjunina á nýjum Breka alveg ljómandi og skipið standist ítrustu væntingar. Hann kveðst hafa góða trú á því að Breki verði mikið aflaskip. Fimmtán manns eru í hverjum túr og er stefnt að því að það verði að minnsta kosti ein og hálf áhöfn jafnan til taks, eða 23-25 manns.