Skriður er kominn á smíði fyrsta stálbátsins fyrir Skipasmíðastöð Njarðvíkur, SKN, í Tyrklandi. Samningur um kaup á bátnum var undirritaður fyrr á þessu ári milli SKN og Stakkavíkur ehf. Báturinn er samstarfsverkefni SKN og Akkan-Maritime í Tyrklandi og er hann hannaður af Ráðgarði Skiparáðgjöf í samstarfi við SKN.

Skrokkurinn er tilbúinn og verið er að innrétta bátinn þessa dagana hjá Akkan-Maritime í Tyrklandi.

Þráinn Jónsson, framkvæmdastjóri SKN, segir ýmsar tafir hafi orðið sem helgist af því að þetta er fyrsti báturinn, hönnun hafi verið breytt og erfiðlega hafi gengið að fá búnað í bátinn afhentan. Afhending á vélum átti til að mynda að vera í desember á síðasta ári og það er ekki fyrr en nú sem þær eru á leið til Tyrklands frá Danmörku. Báturinn verður með tveimur 214 kW aðalvélum. Vélarnar framleiða rafmagn fyrir krapavél og aðra raforkunotkun með tveimur 40 kW rafölum. SKN sýndi þá fyrirhyggju að kaupa allan glussa- og drifbúnað fyrir einu og hálfu ári. Báturinn tekur 60 kör í lest. Nú er allur búnaður í bátinn kominn til Tyrklands að vélunum undanskildum sem eru á leiðinni.

Þráinn Jónsson framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur.
Þráinn Jónsson framkvæmdastjóri Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur.
© Guðjón Guðmundsson (.)

Helmingur af smíðaferlinu

Þráinn býst við að vinna við bátinn hefjist í Njarðvík upp úr næstu áramótum. Upphaflega átti að  afhenda hann í nóvember á þessu ári en nú er stefnt er að því að það verði í febrúar á næsta ári. Þar er um að ræða fullnaðarfrágang á drif- og vélbúnaði og fleiru.

„Okkar verkþáttur er helmingur af smíðaferlinu. Ljósavélina fengum við hjá MD-vélum og glussakerfið var allt keypt af Landvélum þar sem það var hannað. Rafalar og aðvörunarkerfi var fengið hjá Aflhlutum og krapavélar hjá Kælingu. Allt á millidekki er frá Micro ehf. í Hafnarfirði. Samtals keyptum við búnað í bátinn hér innanlands fyrir um 100 milljónir króna,“ segir Þráinn.

Uppistaðan í krókaaflamarksflotanum eru trefjabátar en þó eru þar einnig nokkrir stálbátar. Þeirra stærstur er Tryggvi Eðvarðs SH í Ólafsvík. Hann er þó talsvert minni en nýsmíðin frá SKN sem verður um 13 metra langur og 5,5 metrar á breidd, um 29,9 brúttótonn. Þetta verður fyrsti stálbáturinn inn í krókaaflamarkskerfið sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð í yfir 20 ár.

1,7 m skrúfa

Algeng skrúfustærð á krókaaflamarksbátum er um einn metri í þvermál en skrúfan á nýsmíðinni er 1,7 metrar. Þráinn segir að með þessu fari olíunotkun niður um 25%. Einungis önnur vélin er keyrð meðan dregið er og báðar keyrðar þegar báturinn er á stími. Tilbúinn á línuveiðar með 20.000 króka á rekkum, krana, krapavél og fullkomnum tækjapakka í brú – sem sagt fullbúnum á veiðar, kostar hann á bilinu 370-380 milljónir króna.

Þráinn segir að Skipasmíðastöð Njarðvíkur hafi orðið þess áskynja að útgerðir úr báðum kerfum hugi að endurnýjun báta. Skipasmíðastöðinni hafa einnig borist fyrirspurnir frá útgerðum stærri báta, t.a.m. snurvoðarbáta og rækjubáta, um smíði á allt að 24 metra löngum bátum.

Frá undirskrift samnings milli SKN og Stakkavíkur. F.v.: Garðar Alfreðsson Stakkavík, Ólafur Hermannsson Stakkavík, Gestur Ólafsson Stakkavík, Þráinn Jónsson SKN, Hermann Ólafsson Stakkavík, Stéfán Sigurðsson SKN, Lúðvík Börkur Jónsson SKN, Sveinn Þórarinsson Alasund Shipbrokers og Þórarinn Guðbergsson Alasund Shipbrokers.
Frá undirskrift samnings milli SKN og Stakkavíkur. F.v.: Garðar Alfreðsson Stakkavík, Ólafur Hermannsson Stakkavík, Gestur Ólafsson Stakkavík, Þráinn Jónsson SKN, Hermann Ólafsson Stakkavík, Stéfán Sigurðsson SKN, Lúðvík Börkur Jónsson SKN, Sveinn Þórarinsson Alasund Shipbrokers og Þórarinn Guðbergsson Alasund Shipbrokers.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Fá reynslu á bátinn

„Tyrkland er spennandi kostur sem smíðastaður og samstarfsaðili okkar.  Bæði er gífurleg þekking á skipasmíðum á stórum svæðum meðfram ströndum landsins og verðið er mjög samkeppnishæft vegna mikillar gengislækkunar tyrknesku lírunnar. En við viljum fyrst fá þennan bát til landsins og fá reynslu á hann áður en teknar verða ákvarðanir um smíði fleiri báta. Við viljum tryggja að þessir bátar uppfylli ströngustu gæðakröfur. Ég reikna með því að eftir vertíðina í vetur verði komin nægilega reynsla til þess að hægt verði að selja næsta bát. Málið er þannig uppsett að vinna við bátinn hér heima verður yfir veturinn þegar alla jafna er minnst að gera. Ef framhald verður á þessu þá stefnum við að því að selja einn bát á ári og jafnvel tvo sum árin. Við fengjum þá bátana frá Tyrklandi fyrir haustið og skiluðum þeim af okkur um áramót,“ segir Þráinn.