Í haust mældust um 90 milljarðar einstaklinga af ókynþroska ungloðnu (2009 árgangurinn) sem verður uppistaðan í veiðunum á vertíðinni 2011-2012. Þetta er ekki langt frá meðaltali ungloðnumælinga á síðasta áratug síðustu aldar. Sú ungloðna sem mældist á því tímabili skilaði yfirleitt um og yfir milljón tonna vertíð, að því er fram kemur í samantekt í nýjustu Fiskifréttum.

Í samantektinni er fylgni milli ungloðnumælinga á árunum 1991-2000 annars vegar og útgefins kvóta hins vegar könnuð. Rétt er að hafa í huga að ýmsir fleiri þættir en ungloðnumæling ráða aflamarki hverju sinni.

Meðaltalsmæling á þessu tímabili var 114 milljarðar einstaklingar af ungloðnu á ári. Slík mæling skilaði að meðaltali 1.175 þúsund tonnum í aflamark á hverri vertíð.

Mestur fjöldi ungloðnu á tímabilinu mældist 165 milljarðar einstaklingar af 1994 árganginum. Aflamark á vertíðinni 1996/97 var 1,6 milljón tonn þar sem 1994 árgangurinn var uppistaðan í veiðinni. Um 90 milljarðar einstaklinga í árgangi 1998 gáfu 1,1 milljón á vertíðinni 2000/01. Um 100 milljarðar af ungloðnu gáfu hins vegar 850 þúsund tonn á vertíðinni 1994/95. Loks má nefna að um 100 milljarðar af ungloðnu úr 2000 árganginum gáfu 1 milljón tonna á vertíðinni 2002/03. Hvað 90 milljarðar ungloðnu í mælingunum sl. haust gefa á vertíðinni 2011/2012 kemur svo í ljós í byrjun júní þegar Hafrannsóknastofnun kynnir ráðgjöf sína fyrir næsta fiskveiðiár.