Í sumar höfðu erlend skipafélög boðað 160 komur farþegaskipa með 171.453 farþega, allt þar til afbókanir fóru að berast fyrir skemmstu. Þetta var svipuð bókunarstaða og fyrir ári. Rauntölur urðu aðrar og urðu einungis 7 skipakomur með um 1.300 farþega vegna heimsfaraldursins árið 2020. Faxaflóahafnir gera ekki ráð fyrir miklum tekjum af komum farþegaskipa á þessu ári í fjárhagsáætlun sinni. Eftir síðustu afbókanir hafa erlernd skipafélög boðað 149 skipakomur með 157.000 farþegum.
Rekstrartekjur Faxaflóahafna drógust saman um 15% eða 636 milljónir kr. á milli áranna 2019 og 2020 einkum vegna áhrifa af Covid faraldrinum. Áætla má að tekjufall vegna farþegaskipa hafi orðið um 600 milljónir kr. en tekjur vegna vörugjalda lækkuðu einnig vegna minni vöruinnflutnings.
Erna Kristjánsdóttir, markaðs- og gæðastjóri Faxaflóahafna, segir að næstunni muni afboðanir berast en hversu margar þær verði í heildina verði tíminn að leiða í ljós.
„Í fjárhagsáætlun Faxaflóahafna var gert ráð fyrir fáum komum farþegaskipa þetta árið. Framhaldið er háð því hvernig bólusetning gengur í heiminum. Ef fleiri farþegaskip koma en áætlað er samkvæmt fjárhagsáætlun, þá er það fagnaðarefni því það glæðir lífi í þjóðarbúskapinn,“ segir Erna.
Bókunarstaðan nú byggir á væntingum skipafélaga sem hafa hug á því að hefja siglingar til Íslands. Útgerðir eru áhugasamar að koma til landsins en í ljósi aðstæðna í heiminum þá er erfitt að ferðast með ferðamenn á þessum tíma ef öryggi á að vera tryggt. Flestar útgerðir hafa gefið það út að verði annað á borð haldið úti siglingum til landsins verði það einungis með bólusetta farþega.
Bókað með löngum fyrirvara
Erna segir að um borð í skipunum séu læknar og hjúkrunarfræðingar og sýnatökur eru framkvæmdar. Sérstakur griðastaður er skilgreindur um borð fyrir ef einhver veikist. Farþegar sem koma með farþegaskipum er sá ferðamannahópur sem auðveldast er að fylgjast með, þar sem um skipulagðar ferðir eru að ræða.
„Staðan núna hjá flestum skipafélögunum er sú að farþegar farþegarskipa mega ekki ferðast innanlands á eigin vegum. Heldur verður þeir að ferðast um í ákveðinni búbblu þannig að auðveldara sé að halda utan um hópinn.“
Útgerðir farþegaskipa bóka komur sínar til landsins með eins til tveggja ára fyrirvara. Þetta gera þær meðal annars til þess að tryggja sér bryggjupláss. Misjafnt er hvernig staðið er að afbókunum og geta þær verið allt frá nokkrum mánuðum til nokkurra daga fyrir áætlaða komu. Erna segir að fyrir árin 2022 og 2023 sé bókunarstaða farþegaskipa mjög góð.
Cruise Iceland lét gera könnun á áhrifum af komum farþegaskipa á efnahagslíf landsins fyrir árið 2018. Í ljós kom að bein efnahagsleg áhrif af komu gesta með farþegaskipum á því ári voru 70,6 milljónir evra eða um 8,8 milljarðar króna. Þegar óbein áhrif voru reiknuð til viðbótar mátti ætla að þjóðhagslegur ávinningur af komu farþegaskipanna hefði numið 16,4 milljörðum kr. miðað við gengi á þeim tíma.