Veiðibann á hörpuskel í Breiðafirði hefur nú staðið frá árinu 2003 eða í níu ár og ekki er útlit fyrir að veiðar geti hafist á næstunni. ,,Ég held að enginn hafi gert sér í hugarlund þegar áfallið dundi yfir að veiðibannið myndi vara svona lengi,“ segir Rakel Olsen stjórnarformaður Agustson ehf. (áður Sigurður Ágústsson hf.) í samtali við Fiskifréttir, en 60-70% af veltu fyrirtækisins tengdust hörpuskelinni meðan allt lék í lyndi.
Þegar kvótakerfið var innleitt á sínum tíma urðu skelbátarnir við Breiðafjörð að gefa eftir þriðjung af þeim botnfiskkvóta sem höfðu áunnið sér, ef þeir vildu halda skelveiðiréttindum sínum. Þegar skelveiðin hrundi fengu bátarnir bætur í formi botnfiskheimilda, en þær hafa minnkað stórlega á undanförnum árum og í nýju fiskveiðifrumvarpinu er gert ráð fyrir að þær falli algjörlega niður á næstu árum.
Láta mun nærri að núverandi botnfiskbætur til Stykkishólms gefi um 400 milljónir króna í útflutningstekjur, en til samanburðar má nefna að væri veiði og vinnsla á skel í Stykkishólmi eins og áður næmu útflutningstekjurnar 1800 milljónum króna á núvirði, að sögn Rakelar.
Sjá nánar viðtal við Rakel í Fiskifréttum.