Fiskurinn pout eða pouting, sem fengið hefur nafnið skeggur í íslensku fiskanafnaskránni, hefur slegið í gegn í verslunum stórmarkaðarins Tesco í Bretlandi að undanförnu.
Skeggur hefur verið á boðstólum í 400 verslunum Tesco og salan slagað upp í helming af sölu þorsks sem er vinsælasta hvítfisktegundin í Bretlandi. Flök af skegg hafa verið boðin á 5 sterlingspund með roði og 6 pund roðlaus, en það samsvarar 920-1.104 íslenskum krónum á kílóið, að því er fram kemur á sjávarútvegsvefnum FishUpdate.com. Til samanburðar er nefnt að þorskflök kosti 9 pund kílóið (1.656 ISK), ýsa 8 pund (1.472 ISK) og laxastykki 12,50 pund (2.300 ISK).
En hvaða fiskur er þetta eiginlega? Fram kemur í fréttinni að skegg (trisopterus luscus) sé að finna við strendur Evrópulanda alveg frá Noregi og suður til Spánar. Hann er af þorskfiskaætt og er ein algengasta fisktegundin við strendur Bretlands. Fullorðinn verður hann ekki lengri en 20-30 sentimetrar.
Skeggur er ekki kvótabundin tegund og sjómenn hafa ekki sótt sérstaklega í hann en ef hann fæst sem meðafli er hann yfirleitt bræddur í dýrafóður. Við Bretland veiðist fiskurinn aðallega á grunnsævi við suðvesturströndina, stundum alveg uppi við landsteina, og er því algengur fengur stangveiðimanna.
Tesco kynnti skegg til sögunnar sem lið í því að beina athygli viðskiptavina sinna að fisktegundum sem ekki væru ofveiddir en átak af því tagi hefur verið í gangi síðustu vikur og mánuði þar í landi.