Það er ætíð stór dagur í lífi hvers Grænlendings þegar hann leggur bjarndýr að velli í fyrsta sinn. Því réð Aqqaluk Lothsen, sjómaður og veiðimaður, sér ekki fyrir kæti  þegar hann náði að skjóta ísbjörn á sundi í firðinum við Nuuk, höfuðstað Grænlands, síðastliðinn sunnudag.

Svo vildi til að Aqqaluk var eini sjómaðurinn á veiðislóðinni sem var með leyfi til að skjóta bjarndýr og því kom það í hans hlut að bana skepnunni. Ekki virðist hafa komið til greina að leyfa bangsa að synda í burt óáreittur. Það nægði eitt skot í hnakkann og dýrið var dautt. Eftir að komið var með það til hafnar í Nuuk var það fláð og hlutað í sundur. Læknir var síðan fenginn til að skoða kjötið og kvað hann upp úr um að það væri mannamatur.

Alls er leyft að veiða 140 bjarndýr á Grænlandi á ári. Aðeins þrjú dýr má veiða á stóru svæði á vesturströndinni frá Paamiut til Sisimiut en Nuuk er þar mitt á milli.

Á vef grænlenska útvarpsins má sjá MYNDBAND af því þegar Aqqaluk skaut ísbjörninn, auk fleiri mynda.