Olíukaup eru næst stærsti útgjaldaliður útgerðarinnar á eftir launum og hann hefur hækkað mikið á undanförnum árum. Olíuverð í sögulegu hámarki felur í sér alla hvata til þess að útgerðir geri það sem raunhæft er til að spara olíu. Kolefnisskattur er því einungis skattlagning á himinhátt olíuverð," segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, á heimasíðu sambandsins um hækkun á kolefnisskatti sem lagður er til í frumvarpi til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.
Kolefnisgjald var hækkað um 50% með lögum sem samþykkt voru í fyrra. Skýringin var þá sú að miða ætti við 75% af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB í stað 50% áður. Nú er gjaldinu ætlað að endurspegla viðmiðunarverðið að fullu, þ.e. 100%.
„Okkur er ekki kunnugt um að kolefnisskattur sé lagður á útgerðir innan Evrópusambandsins en þær njóta hins vegar gríðarlegra styrkja. Það eru engin tengsl á milli viðmiðunarverðs á uppboðsmarkaði innan ESB og íslensks atvinnulífs. Þessi skattur skekkir hins vegar stórlega samkeppnisstöðu sjávarútvegsfyrirtækja," segir Friðrik.
Þegar lög um umhverfis- og auðlindaskatta voru upphaflega sett var gjald á hvert tonn CO2 13 Evrur og gjaldið hérlendis ákveðið sem 50% af því. Í fyrra var gjaldið hækkað og sett í 75% hlutfall og nú á enn að hækka það upp í 100% af viðmiðunarverði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB .
„Að vísa til þróunar á viðmiðunarverði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB sem rökstuðnings fyrir hækkun gjaldsins fær ekki staðist. Frá því lögin voru sett hefur verð á hverju tonni af CO2 lækkað úr 13 Evrum í 10," segir Friðrik.
Hann segir olíuverð á heimsmarkaði hafa hækkað verulega á undanförnum árum og að það sé nú í sögulegu hámarki á árinu 2011. „Olíuverð er enn mjög hátt og engar vísbendingar um að það muni lækka aftur á næstu misserum," segir Friðrik ennfremur á heimasíðu LÍÚ.