Meðal niðurstaðna í Sjávarútvegi og eldi, yfirgripsmikilli bók eftir dr. Ástu Dís Óladóttur og dr. Ágúst Einarsson, sem kom út á síðasta ári, er að sérstök skattlagning á veiðileyfi í sjávarútvegi umfram útlagðan kostnað er ekki algeng enda er sjávarútvegur víða styrktur, en þó ekki alls staðar. Hér má sjá helstu niðurstöður í pistli sem unninn er upp úr bókinni.

Alls kyns gjaldtaka er algeng í tengslum við nýtingu náttúruauðlinda, eins og við málm-, gas- og olíuvinnslu, þar sem stjórnvöld takmarka nýtingu og úthluta leyfum. Með gjaldtöku fyrir nýtingu náttúruauðlinda getur verið markmið af hálfu opinberra aðila að standa undir þeim kostnaði sem atvinnugreinin hefur í för með sér fyrir hið opinbera, og þar með skattgreiðendur. Þetta geta verið hafrannsóknir og aðrar rannsóknir, eftirlit, skráning upplýsinga, útgjöld í menntamálum og rekstur hafna. Mörg lönd leggja gjöld á sjávarútveg til að mæta kostnaði hins opinbera við atvinnugreinina, eins og Chile, Færeyjar, Grænland, Ísland, Kanada, Nýja-Sjáland og fleiri lönd. Sérstök skattlagning á veiðileyfi í sjávarútvegi umfram útlagðan kostnað er ekki algeng enda er sjávarútvegur víða styrktur, en þó ekki alls staðar. Slík skattlagning er mun algengari við vinnslu ýmissa náttúruauðlinda eins og olíu.
Auðlindarenta í makríl sem ekki hefur markaðsvæðst
Mikilvægt er að hafa í huga að veiðiheimildir hafa gengið kaupum og sölum í langan tíma, eða frá árinu 1990, og verð þeirra endurspeglar auðlindarentuna, eða væntan hagnað. Þetta þarf að gera sér ljóst við ákvörðun um upphæð veiðileyfagjalds. Þannig er munur á því hvort um er að ræða nýja auðlind eða auðlind þar sem verslað hefur verið með nýtingarréttinn í langan tíma. Auðlindarentan hefur í síðara tilvikinu markaðsvæðst í verði veiðileyfanna og þannig getur verið að ekki sé úr miklum umframarði að moða. Dæmi um nýja auðlind er makríllinn sem tiltölulega nýlega hefur veiðst í íslenskri lögsögu. Makrílleyfin hafa ekki gengið kaupum og sölum, að minnsta kosti ekki í langan tíma. Þar getur því verið um umtalsverða auðlindarentu að ræða sem ekki hefur markaðsvæðst í kaupum og sölu leyfa. Makríllinn er þó sýnd veiði en ekki gefin því að hann lætur oft ekki sjá sig í íslenskri lögsögu.
Veiðileyfagjöld snúast ekki um kvótakerfið
Veiðileyfagjald hefur alltaf verið umdeilt en deilur um veiðileyfagjald snúast ekki um stjórnkerfið, kvótakerfið. Reyndar er þessu oft blandað saman í opinberri umræðu en ekki er rétt að gera svo. Stjórnkerfi er eitt, hvort sem það er aflamarkskerfi, sóknarmarkskerfi eða öðruvísi fyrirkomulag, en gjaldtaka fyrir veiðiréttinn er annað, enda hægt að hafa gjaldtöku eða ekki í hvaða stjórnkerfi sem er. Veiðileyfagjald eykur kostnað við útgerð og dregur þannig úr sókn.
Bátagjaldeyrir
Útgerðarmenn hafa margir hverjir alltaf hafnað veiðileyfagjaldi og vísað meðal annars til þess að hagnaður við fiskveiðar hafi verið tekinn úr atvinnugreininni á sínum tíma með því að haga gengisskráningu þannig að genginu var haldið háu sem leiddi til ódýrs innflutnings fyrir almenning. Þannig hafi hagnaðurinn dreifst áratugum saman að mestu leyti til allra landsmanna eins og bætt lífskjör sýna, ekki hvað síst á allri 20. öldinni. Hafi útgerðir hagnast þá hafi sá hagnaður runnið í nýjar fjárfestingar innan sjávarútvegsins. Þessar röksemdir áttu sérstaklega við þegar opinberir aðilar stjórnuðu öllum verðákvörðunum í sjávarútvegi, þar á meðal fiskverði. Á tímabili var meira að segja sérstakt gengi fyrir afurðir sjávarfangs, svokallaður bátagjaldeyrir, og efnahagslífið var reyrt í höft. Oftast reiknuðu stjórnvöld fiskverð, gengi og aðra þætti þannig að meðaltalsútkoman var á núlli og að meðaltali var því ekki að myndast hagnaður í sjávarútvegi. Svipað kerfi var hér öldum saman í utanríkisverslun þegar miðað var við fast verð og föst verðhlutföll milli afurða.

Meðaltalsafkoma á núlli
Þótt hagnaður sé enginn að meðaltali geta einstök fyrirtæki sýnt góðan hagnað, meðal annars vegna lítils kostnaðar og eða góðrar stjórnunar, en önnur verið með tap, og jafnvel mikið tap, sem dregur þannig meðaltalið niður. Hér áður fyrr var staðan þannig að 1/4 af fjölda fyrirtækja í sjávarútvegi var með 3/4 hluta tapsins, en meðaltöl gefa oft ekki miklar upplýsingar. Þau er hins vegar stundum gagnleg enda oft eini möguleikinn til að sýna einfalda mynd af stöðunni en það er þó hollt að gera sér grein fyrir að þau geta veitt misvísandi upplýsingar.
Það fyrirkomulag að reikna meðaltalsafkomu í sjávarútvegi á núlli og beita gengisskráningu og öðrum aðferðum af hálfu stjórnvalda til að tryggja það heyrir nú sögunni til. Stjórn efnahagsmála breyttist á 9. áratug síðustu aldar, meðal annars með tilkomu fiskmarkaða, og fiskverðsákvarðanir fóru úr höndum opinberra aðila og gengisskráning fór að mestu eftir framboði og eftirspurn eftir gjaldeyri. Formlega er gengisskráning í höndum stjórnvalda en gera þarf greinarmun á nafngengi, sem stjórnvöld geta vissulega ákvarðað, og raungengi. Raungengi er samanburður á þróun launa eða verðlags á Íslandi og í nágrannalöndum mælt í sömu mynt og lýsir hinni raunverulegu stöðu verðlags eða launa í samanburði við aðrar þjóðir. Raungengi ræðst meðal annars af framleiðni í efnahagslífinu.
Gjaldtaka á allar sameiginlegar auðlindir
Sjávarútvegur á Íslandi er mikilvæg uppspretta skatttekna enda mikil efnahagsleg umsvif í hefðbundnum sjávarútvegi og í tengdum atvinnugreinum. Eðlilegt væri að mati höfunda að gjaldtaka væri lögð á allar sameiginlegar auðlindir hérlendis, hvort sem þær eru fiskurinn í sjónum, náttúran, vatnsafl eða orka í iðrum jarðar. Ekki hafa verið gerðar grundavallarbreytingar á stjórnkerfi fiskveiða frá 1984.
Auðsöfnun meiri en nokkur reiknaði með
Hins vegar er ágreiningur um hvort þeir sem fá aflaheimildum úthlutað greiði nægjanlega fyrir aðgang að þessari sameiginlegu auðlind, sem fiskimiðin eru, en það er bundið í lögum. Sú deila hefur staðið í meira en 40 ár. Ein helsta ástæða hennar er að auðsöfnun í tengslum við fiskveiðiheimildir hefur verið mikil og miklu meiri en nokkur reiknaði með. Upphaflega var útgerðum úthlutað fiskveiðiheimildum vegna þess að skip þeirra voru með veiðireynslu yfir þriggja ára tímabil á 9. áratug síðustu aldar. Eigendur þeirra hafa auðgast mikið og margir þeirra hafa horfið úr atvinnugreininni síðan þá, meðal annars vegna sölu eða sameiningar fyrirtækja og kynslóðabreytinga í fjölskyldum. Þetta hefur valdið óánægju víða en svo háttar til á Íslandi vegna fámennis að maður þekkir mann á flestum stöðum, einkum á minni stöðum á landsbyggðinni þar sem flest hefur snúist um fisk í langan tíma.
Sjávarútvegur og eldi mikilvæg uppspretta skatttekna
Gjaldtaka, eða veiðileyfagjald, hefur verið við lýði frá árinu 2002, eða í rúm 20 ár, og sumir segja það mikið og nógu hátt en aðrir halda því fram að svo sé ekki. Hér er ekki lagður dómur á slíkt en brýnt er fyrir sjávarútveginn að sátt skapist um hann, sem undirstöðuatvinnugrein hérlendis, en lítið hefur miðað í þá átt. Hin mikla almenna umræða um veiðileyfagjald bendir til þess að veiðileyfagjald sé það eina sem sjávarútvegurinn greiðir til opinberra aðila. Því fer víðs fjarri. Sjávarútvegur og eldi er mikilvæg uppspretta skatttekna í íslensku samfélagi enda mikil efnahagsleg umsvif í hefðbundnum sjávarútvegi, eldi og í tengdum atvinnugreinum.