Norska hafrannsóknastofnunin telur að minnka þurfi skarfastofninn meðfram allri suðurströnd Noregs. Ástæðan er sú að skarfurinn er talinn éta ógrynni af þorski, svo mikið að þorskstofninn láti á sjá.

Þetta kemur fram í frétt í norska ríkissjónvarpinu og er þar vitnað í Jakob Gjøsæther, vísindamann hjá norsku hafrannsóknastofnuninni. Mikill vöxtur hefur verið í skarfastofninum á svæðinu undanfarin ár. Bent er á til dæmis að fyrsta skarfaparið hafa verpt á Øra-svæðinu í Fredrikstad árið 1997. Síðan þá hefur stofninn stækkað um 31% á hverju ári meðfram allri ströndinni á Østfold, sem er gríðarlegur vöxtur.

Skarfurinn þrífst á sjávarfangi og tekur stóran skerf úr sjónum til sín. Hver fugl etur að minnsta kosti eitt kíló af fiski á dag. Fiskifræðingar skella að sjálfsögðu ekki allri skuldinni vegna bágs ástands þorsksins á skarfinn en þeir telja þó skynsamlegt að veiðar á skarfi verði auknar.