Skaginn 3X og Grieg Seafood í Alta í Noregi undirrituðu á dögunum samning um innleiðingu Grieg Seafood á „sub chilling“ kerfi sem Skaginn 3X hefur þróað á undanförnum árum. Grieg Seafood, sem er fjórði stærsti laxaframleiðandinn í Noregi, er fyrsta fyrirtækið þar í landi sem tekur kerfið í notkun en sams konar kerfi hefur verið notað með framúrskarandi árangri hjá Arnarlaxi á Bíldudal síðan á árinu 2015, að sögn forráðamanna Skagans 3X.

„Sub chilling“ er ný tækni sem gerir framleiðendum kleift að kæla afurð niður að frostmarki á sem skemmstum tíma án þess að frysta hana. Tæknin snöggkælir fiskinn strax eftir slátrun svo hitastig fisksins er um -1.5°C við pökkun.

Helstu kostir þessarar aðferðar við kælingu er að geymsluþol vörunnar eykst um 5-7 daga. Kæliorkan flyst í hold fiskins sem leiðir til þess að hægt er að geyma og flytja fiskinn án íss. Þessir kostir bjóða upp á ódýrari flutningsleiðir, tækifæri til að sækja á nýja og fjarlæga markaði og aukið afhendingaröryggi ásamt minni umhverfisáhrifum af völdum framleiðslu og flutninga.