Sjónvarpsþættir á sjónvarpsstöðinni Channel 4 í Bretlandi, þar sem þekktir matreiðslumenn á borð við Jamie Oliver og Hugh Fearnley-Whittingstall berjast opinskátt gegn brottkasti á fiski innan ESB, hafa vakið athygli þar í landi.
Sjónvarpsmyndir (sjá HÉR) úr veiðiferð, þar sem Fearnley-Whittingstall er um borð ásamt myndatökumanni og fylgist með brottkasti skipverja, segja meira en mörg orð.
Í frétt á vef LÍÚ í nóvember sl. var frá því skýrt að rúmlega 30.000 manns hefðu undirritað áskorun til fiskveiðistjóra Evrópusambandsins, Maria Damanaki, um að brottkast á fiski verði þegar í stað bannað innan Evrópusambandsins. Undirskriftasöfnunin er að frumkvæði Fearnley-Whittingstall, sem blöskrar hve miklu af fiski er árlega kastað fyrir borð af fiskiskipum að veiðum í Norðursjónum.
Á vef breska blaðsins The Independent er m.a. skýrt frá þeim staðhæfingum að allt að helmingi aflans úr Norðursjó sé kastað aftur fyrir borð, ýmist vegna þess að fiskurinn sé of smár eða að kvóti skips í viðkomandi tegund er búinn.
Sjá nánar á vef LÍÚ, HÉR.