Samkvæmt lögunum er dagurinn bæði fánadagur og almennur frídagur sjómanna um land allt, með nokkrum undantekningum þó. Öll fiskiskip og hafrannsóknaskip eiga að vera komin til hafnar á hádegi laugardags og mega ekki láta úr höfn fyrr en á hádegi mánudaginn eftir.

„Tilgangur dagsins var frá upphafi að halda árlega hátíð sjómönnum til heiðurs og minnast jafnframt látinna sjómanna, einkum þeirra er létust af slysförum á sjó. Þessum merkjum hefir síðan verið haldið á lofti,“ segir í greinargerð með frumvarpinu árið 1986.

Sjómannadagsblaðið_2020_-_óvissan_og_þjóðtrúin.jpg
Sjómannadagsblaðið_2020_-_óvissan_og_þjóðtrúin.jpg

Í bók Árna Björnssonar, Sögu daganna, segir að fyrsti sjómannadagurinn hafi verið haldinn 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði, og hafi tekist með miklum ágætum. Talið er að í Reykjavík hafi um tvö þúsund sjómenn tekið þátt í skrúðgöngu og var gengið frá Stýrimannaskólanum gamla við Öldugötu að Leifsstyttu á Skólavörðuholti. Þar voru um tíu þúsund manns samankomnir og var það um fjórðungur allra Reykvíkinga.

Árni greinir einnig frá því að sjómannadagurinn hafi að nokkru leyti tekið við „af hinum gamla lokadegi vetrarvertíðar 11. Maí sem miðast hafði við árabáta og seinna vélbáta.“ Skútur og síðar togarar hafi yfirleitt haldið áfram veiðum til maíloka og áhafnir þeirra lítið þátt getað tekið í lokadeginum. Júníbyrjun hafi því þótt hentugur tími.

Frumkvæði Henrýs

„Frumkvæðið að sérstökum sjómannadegi átti Félag íslenskra loftskeytamanna og þó einkum formaður þess 1935-39, Henrý Hálfdánarson, sem sagður er hafa fengið slíka hugmynd þegar vorið 1939,“ segir í bók Árna.

Henrý vann mikið að slysavarnamálum og var lengi framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands, sem var stofnað árið 1928.

Viðtal við Henrý var birt í Sunnudagsblaði Tímans í nóvember 1962. Þar er hann spurður hvort hann hafi sjálfur lent í sjávarháska.

.
.

„Já, ég er nú einn þeirra sem slysavarnafélagið hefur bjargað. Þá var ég á togaranum Hannesi ráðherra. Hann strandaði út af Kjalarnesi 14. febrúar 1939 í dimmviðri. Skipið lét illa, þar sem það tók niðri, og annar björgunarbáturinn brotnaði en við komumst allir í hinn – átján menn í tveim ferðum og rérum út í Sæbjörgu, sem hafði fundið okkur þrátt fyrir dimmviðrið.“

Gátu ekkert gert

Henrý segist einnig hafa verið á togaranum Hafstein frá Ísafirði, en báðir þessir togara voru nefndir eftir Hannesi Hafstein ráðherra, „og á báðum þessum togurum varð ég áhorfandi að hörmulegum sjóslysum.“

.
.

Henrý var á Hafstein þegar Jón forseti fórst 27. febrúar 1928, en „stóru slysin verða svo oft í febrúar,“ segir Henrý.

„Við vorum þarna margir togarar og varðskipið Þór á strandstaðnum, en það var ekkert hægt að gera til hjálpar, og við máttum horfa aðgerðarlausir á mennina tínast út, hvern af öðrum.“

.
.

Fimmtán fórust þar en tíu björguðust.

„Það setti mikinn óhug að mönnum við þetta slys, og það varð til þess að ýta undir þróun slysavarnamála.“

Greinin birtist fyrst í Sjómannadagsblaði Fiskifrétta árið 2020.