Sjómennska er hættulegasta starfið í Noregi. Frá árinu 1990 hafa 286 sjómenn látið lífið við störf sín, eða 13 manns á ári að meðaltali.

Þetta kemur fram í frétt í norska sjónvarpinu. Þar segir einnig að dauðaslysum hafi fækkað á stærri bátum síðustu árin en sama þróun sé ekki hjá minni bátum. Á bátum undir 15 metrum að lengd hafi slysum ekki fækkað. Það er rakið til þess að á smábátum sé oft aðeins einn maður um borð og það eykur áhættuna.

Talsmenn norskra stjórnvalda segja að mikið hafi áunnist í öryggismálum og því megi búast við fækkun alvarlegra slysa til sjós í framtíðinni.