„Veiðin er alltaf mikil en mín upplifun er sú að menn séu svolítið grunnir á kvóta,“ segir Ragnar Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands, um þróunina og stöðuna á fiskmörkuðum um þessar mundir. Þetta skapi vanda.

„Menn hafa verið að reyna að sækja aukategundir, kola, ýsu og annað og þá hefur þorskurinn verið svolítið fyrir. Menn eiga erfiðara með að sækja aukategundirnar því það  er svo mikið af þorski út um allt. Er ekki eitthvað skakkt gefið þegar það er orðið vesenið? Þetta hefur eiginlega verið saga þessa vetrar,“ segir Ragnar.

Leitin að jafnvægispunkti

Vegna þessa segir Ragnar að til sé orðið nýtt hugtak sem menn hafa um ástandið. „Í vetur heyrði ég nýtt orð um þetta, menn eru að fá þorskmóral,“ segir hann.

Lausnina segist Ragnar ekki endilega hafa á takteinum.

„Menn vilja auðvitað alltaf meiri kvóta en sjá líka þegar það er til dæmis aukinn verulega þorskkvótinn með ýsunni að þá hrynur verðið. Þannig að spurningin er hvað gerist ef við aukum þorskinn of mikið. Það þyrfti að vera miklu meira jafnvægi í þessu,“ segir Ragnar. „Er það ekki einmitt hann sem allir eru að leita að,’“ svarar hann svo spurður um hvar jafnvægispunktinn sé að finna.

Verð á þorski haldist en gefið eftir á aukategundum

Fyrstu þrjá mánuði ársins segir Ragnar að samtals 25.900 tonn hafi farið í gegnum fiskmarkaði landsins. Það er 12,6 prósentum meira en á sama tímabili í fyrra þegar magnið var um 23.000 tonn.

„Það er töluvert meira að fara í gegnum fiskmarkaði núna. Verð hefur verið allt í lagi. Þorskurinn er að halda sér mjög vel. Verð á aukategundum hefur hins vegar gefið svolítið eftir en þá verður að hafa í huga að verð var í sögulegum hæðum í fyrra,“ segir Ragnar Smári Guðmundsson.