EFTIR ÁRNA SVERRISSON

Frá árinu 1891 til ársins 2003, í 112 ár, var skipstjórnarnámið í sjálfstæðum skóla, þar sem dugmiklir menn völdust til forystu og mikil festa ríkti í starfi skólans. Það sama átti við um kennarana, fámennur hópur bar uppi kennsluna. Skólastjórar þessi 112 ár voru einungis fimm, þeir Markús F. Bjarnason 1891-1900, Páll Hall[1]dórsson 1900-1937, Friðrik V. Ólafsson 1937-1962, Jónas Sigurðsson 1962-1981 og Guðjón Ármann Eyjólfsson 1981-2003.

Stýrimannaskólinn í Reykjavík var stofnaður með lögum hinn 22. maí 1890, en skólinn tók til starfa haustið 1891 í eigin húsnæði við Öldugötu í Reykjavík. Fyrsti skólastjóri og einn helsti hvatamaður að stofnun Stýrimannaskólans var Markús F. Bjarnason, skipstjóri. Lagður var hornsteinn að núverandi húsnæði Sjómannaskólans í Reykjavík á sjómannadaginn 4. júní 1944 að viðstöddum fyrsta forseta lýðveldisins og þáverandi ríkisstjóra, Sveini Björnssyni og öllum helstu ráðamönnum landsins og miklum mannfjölda. Í blýhólki þeim sem lagður var í hornsteininn liggja uppdrættir hússins og meginatriði að byggingarsögu skólans, skráð á skinn.

Sjálfstæði skólans lauk haustið 2003 þegar Menntafélagið ehf. tók við rekstri Stýrimannaskólans og Vélskóla Íslands. Tækniskólinn var svo stofnaður árið 2008 þar sem Stýrimannaskólinn er einn af átta undirskólum. Við hjá Félagi skipstjórnarmanna höfum á undanförnum árum orðið varir við vaxandi óánægju með námið í skipstjórn meðal starfandi skipstjórnarmanna, nemenda, kennara og útgerða. Við höfum bent á það í ræðu og riti, við höfum talað við stjórnendur Tækniskólans, stjórnmálamenn og stjórnendur í sjávarútvegi og samtökum þeirra, við höfum einnig rætt við fólk í menntakerfinu til hvaða ráða hægt er að grípa því þetta getur ekki gengið svona.

Skóli sjávarútvegs og siglinga

Niðurstaða okkar er að skora á stjórnvöld og alla hlutaðeigandi að efla nám í skipstjórn og sjávarútvegstengdum greinum. Félag skipstjórnarmanna leggur til að nú þegar verði hafinn undirbúningur að nýjum skóla sem við höfum gefið vinnuheitið „Skóli sjávarútvegs og siglinga“. Skólinn verði í húsnæði okkar, Sjómannaskólanum á Rauðarárholti sem var gefinn sjómannastéttinni árið 1945. Nýr skóli í húsi Sjómannaskólans yrði menntasetur sjávarútvegs á Íslandi, þar yrði nám, námsstýring og utan[1]umhald um nám í skipstjórn, vélstjórn, fisktækni, fiskeldi, slysavörnum, veiðarfæragerð og þróun veiðarfæra í samvinnu við fyrirtæki og starfsmenn í greininni. Skólinn yrði í náinni samvinnu við aðrar menntastofnanir, innanlands og erlendis, kennd yrði sjávarútvegsfræði í samvinnu við Háskólann á Akureyri, Háskólasetur Vestfjarða, kennd yrði útgerðartækni/shipping, alþjóðleg námskeið fyrir hafnsögu, leiðsögu, meðferð sjávarfangs o.fl. Haftengd nýsköpun í samvinnu við aðra, svo sem Sjávarklasann og sambærileg fyrirtæki. Skólinn stæði fyrir alþjóðlegum ráðstefnum og kynningum á því sem við erum að gera í sjávarútvegi.

Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna.
Árni Sverrisson, formaður Félags skipstjórnarmanna.

Mikilvægt er að þátttakendur í sjávarútvegi og menntastofnanir komi að borðinu með opnum huga, markmiðið er að sækja fram, efla menntun, gera hana skilvirkari og betri. Nám í skipstjórn og mögulega vélstjórn verði aðskilið frá Tækniskólanum. Við teljum í ljósi reynslu undanfarinna ára að skipstjórnarnámið eigi ekki heima í þeim skóla, það sé fullreynt. Skynsamlegra væri að efla skylt nám í greinum sjávarútvegs og siglinga í einum og sama skólanum. Í stjórn skólans sætu hagaðilar í sjávarútvegi, námið yrði miðað að þörfum greinarinnar, þar sem leitast yrði við að efla nám til skilnings á öllum greinum er lúta að sjávarútvegi, skipstjórn, hafrannsóknum, fiskeldi og fleiru. Með öðrum orðum menntasetur með hagsmuni sjávarútvegs og siglinga að leiðarljósi.

Í nýjum skóla „Sjávarútvegs og siglinga“ yrði lögð rík áhersla á samvinnu skólans við sjávarútveginn og stéttarfélög. Sparnaður hlytist af með samstarfi á milli fyrirtækja og skólans þar sem kennt yrði á tæki og vélbúnað um borð í skipum, meðal annars þeirra sem eru í eigu ríkisins, haf[1]rannsókna- og varðskipa. Nemendum með enga reynslu á sjó yrði gert skylt að taka nám um borð í skipum undir leiðsögn (kadettanám) eins og tíðkast hefur í nágrannalöndunum um árabil, það yrði hluti af náminu. Það er vöntun á skipstjórnarmönnum á Íslandi, það þarf að spýta í lófana og láta hendur standa fram úr ermum, störf í sjávarútvegi til sjós og lands eru góð störf, þar er gott að starfa.

Góðir Íslendingar, gleymum ekki uppruna okkar, hefjum námið upp til vegs og virðingar. Stöndum vörð um að hin glæsilega bygging okkar „Sjómannaskólinn“, verði um aldur og ævi tákn sjómannamenntunar og sjávarútvegs á Íslandi, þar verði miðstöð menntunar og þjálfunar sjómanna og nemenda í sjávarútvegstengdum greinum.

Ég óska sjómönnum, fjöl[1]skyldum þeirra og landsmönnum öllum gleðilegs sjómannadags.

Höfundur formaður Félags skipstjórnarmanna.