"Við ákváðum að leggja fram ákveðið tilboð til SFS til lausnar deilunni. Það er okkar lokahnykkur í málinu. Við komumst ekki lengra,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands í samtali við RÚV. Hann tekur fram að tilboðið sé frá Sjómannasambandinu en alls standa fjögur félög í kjaradeilu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. „Þetta verður kynnt þeim núna, í dag,“ segir Valmundur um samskiptin við SFS.
Valmundur vildi ekki tjá sig efnislega um tillöguna þegar fréttastofa RÚV ræddi við hann. Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari setti viðsemjendur í kjaradeilu útgerða og sjómanna í fjölmiðlabann fyrir rúmri viku.
Bryndís sagði í samtali við fréttastofuna klukkan fjögur í dag að ekki hefði verið boðað til nýs fundar í kjaradeilunni. Hún er í samskiptum við viðsemjendur og boðar til fundar þegar hún telur framvinduna gefa tilefni til þess.